Ráðning sveitarstjóra í Borgarbyggð

mars 17, 2016
Byggðaráð Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum í morgun að ganga til samninga við Gunnlaug Auðunn Júlíusson um stöðu sveitarstjóra í Borgarbyggð. Gunnlaugur hefur frá árinu 1999 starfað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem sviðsstjóri Hag- og upplýsingasviðs. Þar áður starfaði Gunnlaugur sem sveitarstjóri á Raufarhöfn. Gunnlaugur lauk búfræðinámi á Hvanneyri árið 1975 og nam landbúnaðarhagfræði í Svíþjóð og Danmörku á árunum 1980-1987. Hann lauk námi í verðbréfamiðlun við Háskólann í Reykjavík árið 2001 og stundaði meistaranám við fjármálaskor viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands á árunum 2002-2005. Gunnlaugur er giftur Sigrúnu Sveinsdóttur, lyfjafræðingi og þau eiga þrjú uppkomin börn. Gunnlaugur kemur til starfa um mánaðarmótin apríl/maí og mun flytja í Borgarbyggð.
Byggðarráð bókaði jafnframt þakkir til umsækjenda um starf sveitarstjóra Borgarbyggðar, 26 hæfir einstaklingar sóttu um starfið og var það ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem á starfinu er.
 
 
 

Share: