Ráðið í stöðu munavarðar

júlí 4, 2007
Sigrún Elíasdóttir hefur verið ráðin í starf munavarðar við Safnahús Borgarfjarðar og hefur hún störf 1. ágúst. Sigrún er sagnfræðingur að mennt og stundar meistaranám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur áður unnið að ýmsum verkefnum fyrir Safnahúsið. Sigrún er frá Ferjubakka í Borgarhreppi.
 
Munavörður hefur umsjón með Munasafni, sem er yfirheiti fyrir Listasafn Borgarness, Byggðasafn Borgarfjarðar og Náttúrugripasafn Borgarfjarðar. Munavörður gerir fjárhagsáætlanir fyrir þessi söfn og ber faglega ábyrgð á því að varðveisla safnmuna standist kröfur um ábyrga minjavörslu. Hann mótar einnig varðveislu- söfnunar- og sýningarstefnu fyrir söfnin og hefur umsjón með minjageymslum. Munavörður veitir öðrum söfnum á Borgarfjarðarsvæðinu ráðgjöf á sviði geymslumála og hefur umsjón með fræðslu/ miðlun til skólahópa og annarra gesta Safnahúss. Starfið er hálft stöðugildi til að byrja með, en starfshlutfallið verður endurskoðað um áramót. Aðrir starfsmenn í Safnahúsi eru Sævar Ingi Jónsson bókavörður og Jóhanna Skúladóttir skjalavörður, bæði í fullu starfi. Forstöðumaður Safnahúss er Guðrún Jónsdóttir sem jafnframt gegnir starfi menningarfulltrúa Borgarbyggðar.

Share: