Gert er ráð fyrir 234 m.kr. afgangi af rekstri Borgarbyggðar 2026

nóvember 14, 2025
Featured image for “Gert er ráð fyrir 234 m.kr. afgangi af rekstri Borgarbyggðar 2026”

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var afgreidd frá fyrri umræðu í sveitarstjórn í gær. Á árinu 2026 er gert ráð fyrir rekstrarafgangi af A-hluta að fjárhæð 234 m.kr. og að veltufé frá rekstri verði 727 m.kr. sem samsvarar 9,8% framlegð en tekjur eru áætlaðar 7.441 m.kr.

Fjárfestingar Borgarbyggðar hafa verið miklar eins og gert var ráð fyrir í þeim áætlunum sem unnið hefur verið eftir síðastliðin þrjú ár. Á árinu 2025 hefur verið fjárfest fyrir umfram tvo milljarða króna, mest í skólahúsnæði, íþróttamannvirkjum, nýjum götum og stígum og lagður grunnur að framtíðaruppbyggingu.

Nú standa yfir tvær stórframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, endurbygging hluta Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum, sem líkur fyrir áramót, og nýtt fjölnota íþróttahús – knatthús í Borgarnesi. Næsta stórframkvæmd á vegum Borgarbyggðar er nýbygging við leikskólann Ugluklett. Undirbúningur gengur vel og gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist vorið 2026.

Eins og önnur sveitarfélög hefur Borgarbyggð staðið frammi fyrir kostnaðarhækkunum. Því hefur verið mætt t.d. með breytingum á skipulagi, sjálfvirknivæðingu og hagstæðum þjónustukaupum. Vel hefur verið haldið utan rekstur málaflokka og nýráðningar af hálfu forstöðumanna. Þannig hefur stöðugildum hjá sveitarfélaginu lítillega fækkað frá sama tíma í fyrra og tekjur sveitarfélagsins hafa styrkst.

Útgjaldarammi til málaflokka ber með sér áherslu á íþrótta- og æskulýðsmál, frekari þróun í skólamálum og að bætt verði í endurbætur á götum, götulýsingu og gangstéttum svo eitthvað sé nefnt.

Á árinu 2025 er útlit fyrir að hrein ný lántaka nemi í kringum 2,0 ma.kr. Á árinu 2026 er handbært fé frá rekstri A-hluta áætlað 683 m.kr. og hrein ný lántaka um 1,6 ma.kr. M.v. fjárhagsáætlun 2026 munu heildareignir A-hluta Borgarbyggðar standa í 14,9 ma.kr. undir lok næsta árs. Bókfært eigið fé verður tæplega 6,6 ma.kr. og eiginfjárhlutfall því 44%. Heildarskuldir og skuldbindingar munu nema um 8,3 ma.kr.. Skuldaviðmið Borgarbyggðar mun standa í 64% við lok árs 2025 og í 83% í árslok 2026 sem er vel innan skynsamlegra og lögbundinna marka.

Vakin er athygli óvissu er tengist endurgreiðslum ríkisins til sveitarfélagsins vegna fjárhagsaðstoðar við útlendinga sem hafa verið á landinu lengur en þrjú ár. Í þessari fjárhagsáætlun er miðað við að endurgreiðslur fáist áfram. Verði það ekki raunin er líklegt að rekstrarniðurstaðan verði um 130-150 m.kr. lakari en ella.

Í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar er ekki áætlað fyrir áhrifum af fyrirhugaðri sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.

 


Share: