Fyrir nokkrum árum fór í gang verkefnið Egla tekur til hendinni. Um er að ræða átak til að vekja athygli á skaðsemi plasts fyrir lífríkið og hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að draga úr notkun á einnota plasti. Í samstarfi við Ölduna voru saumaðir fjölnota pokar sem lágu frammi í verslunum og fólk gat fengið að láni í stað þess að kaupa einnota burðarplastpoka.
Mikið vatn hefur nú runnið til sjávar, og einnota burðarplastpokar eru ekki lengur sjáanlegir í verslunum. Þó hefur verið ákveðið að leggja til fleiri poka að láni þar sem verkefnið vakti mikla lukku á sínum tíma. Aldan hefur saumað fleiri poka sem liggja nú frammi í Hyrnutorgi og er öllum íbúum velkomið að fá lánaða poka óháð því hvaða verslun farið er í.
Umrætt verkefni hóf göngu sína árið 2017 og voru allar stofnanir Borgarbyggðar heimsóttar á sínum tíma til þess að vekja athygli á skaðsemi plasts fyrir lífríkið og okkur sjálf. Stofnanirnar hafa markvisst verið að draga úr notkun á einnota vörum og er starfsfólk hugmyndaríkt þegar kemur að nýtingu úrgangs sem efniviðar til ýmissa nota.
Nánar um tilgang og markmið verkefnisins er að finna hér.