Til foreldra frá samstarfshópi um forvarnir í Borgarbyggð og SAMAN-hópnum
Í 18 ára ábyrgð felst m.a. að foreldrum ber skylda til að leiðbeina og setja skýr mörk.
Foreldrar gera sér æ betur grein fyrir skaðlegum áhrifum ótímabærrar áfengisneyslu á líf ungmenna. Þeir hafa með virkum hætti tekið ábyrgð á uppeldi barna sinna og spornað gegn hvers konar vímuefnaneyslu þeirra.
Það hafa þeir m.a. gert með því að hvorki samþykkja unglingadrykkju né stuðla að henni með kaupum á áfengi handa unglingunum, enda sýna rannsóknir að þeir unglingar sem foreldrar kaupa áfengi fyrir eru líklegri til að verðaoftar ölvaðir en þeir unglingar sem þurfa að fara erfiðari leiðir við öflun áfengis og að með því að útvega unglingum áfengi eru foreldrar að bæta við neysluna hjá unglingnum, ekki að takmarka hana við það sem þau fá hjá foreldrum.
Jafnframt hefur aukist að foreldrar standi saman og leyfi ekki eftirlitslaus partý á sínum heimilum, heldur séu til staðar og fylgist með að allt fari vel fram.
Nú um páskana og á vordögum verða böll í Borgarbyggð þar sem aldurstakmarkið er 16 ár. Böll sem þessi eru þekktur vettvangur unglingadrykkju. Samstarfshópur um forvarnir í Borgarbyggð vill því hvetja foreldra til að taka ábyrga afstöðu til þess hvort unglingurinn fær að fara á ball og með hvaða hætti sé tryggt að hann hljóti ekki skaða af!
Unglingar sem búa við umhyggju, aðhald og stuðning foreldra eru líklegri til að forðast áhættuhegðun s.s. áfengis og fíkniefnaneyslu. Ef ábyrgðin er í réttum höndum og grundvallaratriðin ljós er líklegra að gæfan verði okkur hliðholl.
Með ósk um gleðilega páska.
Samstarfshópur um forvarnir í Borgarbyggð og SAMAN-hópurinn