Pappírslaus Borgarbyggð – reikningar

júlí 9, 2024
Featured image for “Pappírslaus Borgarbyggð – reikningar”

Borgarbyggð hefur ákveðið að frá og með 1. janúar 2025 verður eingöngu tekið við rafrænum reikningum. Einnig verður hætt að senda út reikninga til greiðenda á pappírsformi.

Markmiðið með breytingunni er m.a. að auka skilvirkni í skráningu, greiðslu reikninga og lágmarka villur. Er þetta hluti af þeirri vegferð sveitarfélagsins að verða pappírslaust fyrir árið 2027. Borgarbyggð er með þessu að taka þátt í þeirri tækniþróun og umhverfisstefnu sem lagt hefur verið upp með að sveitarfélög fylgi.

Innsending reikninga

Alla reikninga til Borgarbyggðar skal senda með rafrænum hætti í gegnum skeytamiðlun og vakin er athygli á að ekki er nægjanlegt að senda kröfu í banka. Vinsamlega ekki senda pappír samhliða rafrænum reikningum.

Við hvetjum sendendur reikninga  til þess að huga að uppsetningu rafrænna lausna fyrir sinn rekstur ef þeir eru ekki nú þegar komnir með rafrænt bókhald. Mörg bókhaldskerfi bjóða uppá að senda reikninga með skeytamiðlun. Þjónustuaðilar fjárhagskerfa og skeytamiðlarar veita nánari upplýsingar um rafræna reikninga og hvaða leiðir eru í boði. Fyrir aðila sem eru ekki með bókhaldskerfi má benda á ýmsar veflausnir þar sem hægt er að skrá reikninga og senda rafrænt.

Nánari upplýsingar og þau gögn sem reikningar þurfa að innhalda má sjá hér.

Reikningar frá Borgarbyggð

Allir útgefnir greiðsluseðlar frá Borgarbyggð birtast í heimabanka greiðanda, hægt er að nálgast nánari upplýsingar um reikninginn undir Þjónustugátt á Borgarbyggd.is. með rafrænum skilríkjum.

Álagningarseðlar fasteignagjalda er að finna á mínum síðum á www.island.is eða í appi island.is sem er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi.

Sé þess sérstaklega óskað er hægt að fá reikninga senda í pósti á pappírsformi.

Nánari upplýsinar um reikninga frá Borgarbyggð er að finna hér.

Allar nánari upplýsingar gefa starfmenn Borgarbyggðar – vinsamlega hafið samband á netfangið borgarbyggd@borgarbyggd.is

 


Share: