Óþarfa offarsi

mars 3, 2016
Fréttatilkynning frá Ungmennafélagi Reykdæla
Ungmennafélag Reykæla í Borgarfirði frumsýnir næstkomandi föstudag, 4. mars, leikritið Óþarfa offarsa eftir bandaríska leikarann og leikskáldið Paul Slade Smith. Leikritið er farsi eins og nafnið bendir til og skartar hvorki fleiri né færri en átta hurðum eins og góðum farsa sæmir. Verkið var fyrst frumsýnd árið 2006 í Bandaríkjunum og hefur verið sett upp nær 200 sinnum víðsvegar um Bandaríkn, í Bretlandi, Ástralíu, Sviss og Singapúr. Sýning Ungmennafélags Reykdæla er önnur uppfærsla Óþarfa offarsa á Íslandi. Hörður Sigurðarson íslenskaði og í hans leikstjórn var verkið sýnt hjá Leikfélagi Kópavogs í fyrra.
“Óþarfa offarsi” er sem fyrr segir, átta hurða farsi með öllu því sem prýða má góðan farsa. Lögreglan býr sig undir að standa spilltan borgarstjóra að verki og setur upp gildru á mótelherbergi. Fljótlega kemur í ljós að lögreglumennirnir tveir eru ekki þeir allra slyngustu í starfi og nýhafið ástarsamband annars þeirra við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi auðveldar ekki málin. Einnig koma við sögu hræðslugjarn yfirmaður öryggismála, illiskiljanlegur leigumorðingi og gæðaleg borgarstjórafrú. Augljóst má því vera að þegar þessi hópur kemur saman er hreint ekki von á góðu.
Átta leikarar skipta með sér sjö hlutverkum. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson, margreyndur leikstjóri hjá áhugaleikfélögum vítt og breitt um landið, leikskáld, tónlistarmaður og Ljótur hálfviti.
Sýningar fara fram í félagsheimilinu Logalandi í Reykholtsdal. Miðapantanir í síma 435 1182/691 1182 eða á netfangið umfr.offarsi@gmail.com

Nánari upplýsingar:
Embla Guðmundsdóttir s. 691 1182
Jóna Kristjánsdóttir s. 699 4695
 

Share: