Orkuveita Reykjavíkur tekur við rekstri fráveitna í Borgarbyggð

desember 20, 2005

Fimmtudaginn 15. desember var undirritaður samningur á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Borgarbyggðar sem felur í sér að Orkuveitan tekur frá og með 1. janúar 2006 yfir rekstur fráveitna í Borgarnesi, á Bifröst og á Varmalandi.
Með þessum samningi hækkar verðmæti eignarhlutar Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur um tæpar 100 milljónir, en Borgarbyggð á 0.76% eignarhlut í fyrirtækinu. Jafnframt felur samningurinn í sér að Orkuveita Reykjavíkur mun sjá um alla uppbyggingu dælu- og hreinsistöðva sem og annarra mannvirkja sem fráveitunum tengjast. Til að mæta kröfum reglugerða um fráveitu og mengunarvarnir mun Orkuveita Reykjavíkur fara í töluverðar framkvæmdir í Borgarbyggð á árunum 2006-2009 og má ætla að kostnaðurinn verði um 400 milljónir.
Við sama tækifæri var undirritaður samskonar samningur við Borgarfjarðarsveit sem og Akraneskaupstað og Reykjavíkurborg. Orkuveita Reykjavíkur hefur því tekið yfir rekstur fráveitu hjá öllum eignaraðilum sínum.

 
 

Share: