Orkuveitan eignast HAB að fullu

janúar 21, 2010
Samkomulag hefur tekist á milli Orkuveitu Reykjavíkur og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, um kaup OR á 20% hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB). Á næstu vikum verður rekstur hitaveitunnar sameinaður öðrum veiturekstri Orkuveitunnar. Kaupverðið nam 150 milljónum króna og auk eignarhlutar ríkisins fylgir með í kaupunum nýtingarréttur af Deildartunguhver til 55 ára.
HAB var stofnuð árið 1979 af sveitarfélögum á Vesturlandi og ríkinu í því augnamiði að nýta vatn úr Deildartunguhver í Borgarfirði til húshitunar í héraðinu og allt suður á Akranes, sem er í um 60 kílómetra fjarlægð. Var þessi vatnsmesti hver Evrópu virkjaður í þessu skyni og lengsta hitaveitulögn landsins var lögð, en 62 kílómetrar eru frá hvernum á Akranes. Árið 2002 lögðu sveitarfélögin eignarhlut sinn í HAB, ásamt fleiri eignum, inn í Orkuveitu Reykjavíkur. Þau hafa verið á meðal eigenda OR síðan og Orkuveitan farið með 80% hlut í HAB.
Fjármálaráðherra hefur um árabil haft heimild Alþingis til að selja hlut ríkisins í HAB og haustið 2008 samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að leita eftir kaupum á hlut ríkisins. Þá lá fyrir að ráðast þyrfti í umfangsmiklar endurbætur á veitunni til að tryggja þjónustu við viðskiptavini hennar. Hefur verið unnið að þeim jafnt og þétt síðan en alfarið á ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur.
Samkomulagið, sem undirritað var á föstudag, og sameining HAB og OR í kjölfarið, felur í sér að viðskiptavinir HAB verða framvegis á meðal viðskiptavina Orkuveitu Reykjavíkur. Verður þeim öllum send tilkynning þar að lútandi með hagnýtum upplýsingum sem lúta að samskiptum viðskiptavina við Orkuveituna.
OR opnar afgreiðslu í Borgarnesi
Þá hefur Orkuveita Reykjavíkur opnað afgreiðslu í Borgarnesi í húsnæði sínu að Sólbakka 15. Á þessum nýja afgreiðslustað verður öll almenn afgreiðsla og þjónusta við viðskiptavini Orkuveitunnar. Afgreiðslan verður til að byrja með opin alla miðvikudaga frá kl. 9:00 til 15:15.
Orkuveita Reykjavíkur er nú með fjóra afgreiðslustaði á dreifisvæði fyrirtækisins; í höfuðstöðvum OR að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík, Selvogsbraut 2 í Þorlákshöfn, Dalbraut 8 á Akranesi og nú að Sólbakka 15 í Borgarnesi.
 

Share: