Opið fyrir umsóknir í tónlistarnám – nýbreytni

júní 7, 2022
Featured image for “Opið fyrir umsóknir í tónlistarnám – nýbreytni”

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í tónlistarnám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar næsta skólaár. Nemendur sem ekki tilkynntu að þeir væru hættir ganga fyrir og hafa verið skráðir í námið næsta haust. Forráðamenn eru beðnir að láta vita strax ef nemandi ætlar ekki að halda áfram.

Aukin áhersla verður á næsta skólaári lögð á samspil nemenda sem leika á ólík hljóðfæri og bryddað verður á nýjungum í starfinu. Þannig er nú í fyrsta skipti hægt að velja stúdíóið sem hljóðfæri. Það þýðir að hægt er að velja að stunda hálft nám í sköpun og upptökum í tölvu í bland við notkun á hljóðfærum eftir atvikum. Hálft nám samsvarar yfirleitt 30 mínútna einkatíma með kennara. Námið stendur til boða þeim sem eru að fara í 9. bekk eða eru eldri. Leikni á hljóðfæri eða fyrra tónlistarnám er kostur en ekki nauðsynlegt. Viðkomandi þurfa að hafa áhuga á skapandi vinnu á sviði tónlistar, hafa gaman af tækni og vilja til að vinna með öðrum. Kennt verður í smáum hópum (3 í hverjum) og fær hver nemandi vikulegan 50 mínútna tíma með sínum hópi og kennara hans. Um er að ræða tilraun í starfinu og spennandi að sjá hvort áhugi er fyrir þessu. Notað verður forritið Pro tools og læra nemendur á grunnatriði í notkun þess. Einnig er stefnt að uppbroti á kennslunni í eina viku á haustönn þar sem nemendur tónlistarskólans fá tækifæri til að sækja fleiri og fjölbreyttari tíma en venjulega, geta kynnt sér og leikið á önnur hljóðfæri, sungið og jafnvel dansað og fleira skemmtilegt.

Starf Tónlistarskóla Borgarfjarðar hefur verið viðburðaríkt í vetur. Eins og víða þá varð smám saman léttara yfir þegar Covid sleppti tökunum. Á vorönninni tóku fjórir nemendur skólans þátt í Nótunni sem haldin var í Stykkishólmi og stóðu sig öll frábærlega. Einn nemandi skólans sendi frumsamið verk í Upptaktinn og var valinn til þátttöku sem var mikið fagnaðarefni. Aðeins 13 tónverk komust áfram af þeim um 70 verkum sem bárust. Upptakturinn varð til árið 2012 og er samstarfsverkefni Hörpu, Barnamenningarhátíðar, RÚV og Listaháskóla Íslands og er opinn 10 –15 ára ungmennum. Leikið var fyrir eldri borgara í félagsstarfi þeirra og gaman að fá að fara aftur út í samfélagið með þeim hætti. Nemendur úr söngleikjadeild komu fram á 1.maí hátíð Stéttarfélags Vesturlands undir stjórn kennara sinna. Kennari frá tónlistarskólanum sá um smiðju á smiðjuhelgi unglinga á Kleppjárnsreykjum sem var á vegum grunnskólans. Þetta var spennandi vinna með frábærum krökkum og útkomunni vel tekið á viðburði í lok smiðjuhelgarinnar. Það var sem sagt ýmislegt í gangi.

Vorpróf voru fjölmörg á þessu vori og þrír nemendur hafa á árinu tekið grunnpróf á sitt hljóðfæri. Við gátum haldið sýningar og tónleika í lok skólaársins án vandkvæða og var það mikill léttir. Söngleikjadeildinni lauk með sýningum á sögunni um Bróður minn Ljónshjarta og níu vortónleikar fóru fram, sex tónleikar voru haldnir í tónlistarskólanum, einir á Hvanneyri og tvennir í Reykholtskirkju. Þeir nemendur sem léku á tónleikunum æfðu sig sérstaklega fyrir þessa viðburði. Allir fengu að lokum vitnisburð um námið. Við óskum öllum nemendum skólaárins til hamingju með árangur sinn og hlökkum til að hitta alla þá sem kjósa að stunda tónlistarnám hjá okkur næsta vetur.


Share: