Opið fyrir umsóknir í tónlistar- og listnám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar

október 26, 2023
Featured image for “Opið fyrir umsóknir í tónlistar- og listnám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar”

Tónlistarskóla Borgarfjarðar / Listaskóla Borgarfjarðar er ætlað að stuðla að öflugu tónlistar- og listalífi jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga. Á tónlistarbraut og listabraut er tekið mið af margvíslegum áhugasviðum nemenda, getu þeirra og þroska. Kennsluaðferðir og viðfangsefni eru fjölbreytt og sveigjanleg og hentar börnum, ungmennum og fullorðnum.

Innritun í Tónlistarskóla Borgarfjarðar / Listaskóla Borgarfjarðar fer alla jafna fram að sumri, en hægt er að sækja um um tónlistarnám hvenær ársins sem er þar sem það fer fram í einkatímum að mestu. Skólaárið skiptist í tvær annir, haust‑ og vorönn. Nemendur sem eru í tónlistarnámi eru færðir milli anna og ára í sama tónlistarnám nema tilkynnt sé um annað. Mikilvægt er að þeir nemendur sem hætta tilkynni það sérstaklega þannig að aðrir komist að. Nemendur í listnámi eru ekki færðir sjálfkrafa milli anna. Á umsóknarsíðu er hægt að sjá hvaða tónlistar- og listnám er í boði. Reynt er að mæta óskum um staðsetningu tónlistarnáms, en það er ekki hægt í öllum tilfellum. Listnámið fer að mestu fram í Borgarnesi.

Tónlistarnámið er fjölbreytt og fyrir alla aldurshópa. Elstu tveimur árgöngum í leikskóla býðst að taka þátt í forskóla tónlistarskólans. Hljóðfæranám er fjölbreytt og einnig er boðið upp á söng og stúdíónám. Söngleikjadeildin er ætluð nemendum frá 7 ára aldri og þar er unnið með söng og leiklist og sýningar í lok annar. Bæði forskólinn og söngleikjadeildin koma ítrekað fram á vegum sveitarfélagsins.

Á listnámsbrautinni er hægt að velja um þátttöku í leiklistarstarfi, dansþjálfun eða myndlist í mismunandi aldurshópum. Mikilvægt er að áhugasamir sæki um til að hægt verði að meta áhugann og sjá hvort lágmarksþátttaka næst á einstakar námsleiðir.

Leiklist verður kennd í samstarfi við MB og geta allir nemendur MB tekið þátt á forsendum skólans auk þess sem nemendur í 10.bekk sótt um að þátt. Um er að ræða undanfaranámskeið og svo sýningarvinnu og sýningar í MB á vorönn. Þeir nemendur í 10.bekk í grunnskólum Borgarbyggðar sem taka þátt í öllu verkefninu og skapa sér þannig matseiningar við nám í MB geta stundað leiklistarnámið án skólagjalda vegna samninga MB og Listaskólans. Þeir sem kjósa að taka aðeins undanfaranámskeiðið í leiklist greiða hóptímagjald í eina önn samkvæmt gjaldskrá Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Leiklistarkennslan fer fram í MB seinnipartinn á miðvikudögum.

Boðið verður upp á danslistarnám fyrir 10-12 ára nemendur af öllum kynjum í samstarfi við Dansgarðinn. Kenndir verða hóptímar í Borgarnesi og undir lok annar verður æft og sýnt með hópum í Dansgarðinum í Reykjavík. Um er að ræða stórar jóla- og vorsýningar í Borgarleikhúsinu. Danslistarnámið felst í grunnkennslu í ballet og skapandi hreyfingu/nútímadans.

Boðið verður upp á myndlistarnámskeið í samvinnu við Myndlistaskólann í Reykjavík. Námið er með sama sniði og þar og þeir nemendur sem taka námskeið teljast hafa lokið þeim kjósi þeir að fara í Myndlistaskólann í Reykjavík. Haustið 2023 verður boðið upp á námskeið í MANGA teikningu fyrir 13-16 ára nemendur í Borgarnesi. Á námskeiðinu læra nemendur að þróa persónu, frá hugmynd í klárað verk. Nemendur þjálfast í að teikna persónu frá mismunandi sjónarhornum og í mismunandi stöðum og að túlka svipbrigði þeirra. Lögð verður áhersla á „Manga“ teiknistílinn, mismunandi einkenni hans og mikilvægi persónusköpunar.

Tímasetningar í listnámsáföngum liggja ekki fyrir en mikilvægt er að áhugasamir sæki um þannig að hægt sé að meta áhugann og sjá hvort lágmarksþátttaka næst. Miðað er við minnst 5-8 í hverjum hópi.

Gjaldskrá listnámshópa er sú sama og fyrir hóptíma í tónlistarskólanum. Sjá gjaldskrá undir Skólaþjónusta á vef Borgarbyggðar, sjá hér.

Nemendur greiða skólagjöld í samræmi við námshlutfall. Veittur er 25% afsláttur hjá öðru barni og 50% afsláttur hjá þriðja barni í fjölskyldu, dýrasta nám án afsláttar en síðan koll af kolli.

Hægt er að nýta frístundastyrk í frístundanám og lengri námskeið.

Vinsamlegast fyllið út umsókn um tónlistarnám eða annað listnám HÉR.

Allar frekari upplýsingar veitir skólastjóri gegnum netfangið tonlistarskoli@borgarbyggd.is eða í síma 433-7190/864-2539


Share: