Ógöngur í óveðri

október 3, 2003
Risjótt tíðarfar hefur sumstaðar gert gangnamönnum lífið leitt á heiðum uppi. Fyrir rúmri viku lentu Þverhlíðingar og Stafholtstungnamenn í slarki á afrétti en þeir þurftu að brjótast gegnum þoku og hríðarbil. Að sögn Sindra Sigurgeirssonar bónda í Bakkakoti komust Stafholtstungnamenn ekki af stað í aðra leit fyrr en um hádegi á laugardag fyrir þoku en að öllu eðlilegu er lagt í hann í birtingu.

„Við náðum helling af fé þrátt fyrir vonsku veður og
regn. Við komumst inn Búrfellsdal og upp að Holtavörðuvatni en ekki alveg
upp í Snjófjöll. Við náðum hinsvegar ekki að smala niður á sunnudag vegna
veðurs en komum fénu á bíla upp við gangnaskála,“ segir Sindri.
Þverhlíðingar ákváðu að bíða veðrið af sér á sunnudag, að sögn Sindra, og
lágu fyrir í leitarkofanum í Þverárdal til kl. fjögur um daginn og þurftu að
ríða í gegnum djúpan snjó á niðurleið.
Farið var í þriðju og síðustu leit um síðustu helgi og sagði Sindri að þá
hefði allt gengið að óskum og nú væri afrétturinn í það minnsta fast að því
fjárlaus.

Share: