Nýtt svið var vígt með sérstökum hætti í Skallagrímsgarði í Borgarnesi í gær. Það voru tvær sex ára stúlkur, þær Þórunn Birta Þórðardóttir og Íris Líf Stefánsdóttir, sem héldu í fánaborða sem formaður Kvenfélags Borgarness, Herdís Guðmundsdóttir, klippti á. Þess verður að geta að Þórunn Birta er barnabarn Steinunnar Pálsdóttur sem er umsjónamaður Skallagrímsgarðs, og Íris er langömmubarn Geirlaugar Jónsdóttur sem var einn ötulasti frumkvöðull að stofnun garðsins á sínum tíma. Það var Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri sem stýrði þessari fallegu athöfn. Nýja sviðið er sannkölluð prýði í garðinum. Það er hannað af Ómari Péturssyni og var smíðað af mönnum Ólafs Axelssonar. Vegghleðsla í forgrunni er hlaðin af Unnsteini Elíassyni.
Dagskrá gærdagsins í Borgarnesi hófst með brúðuleikhússýningu Bernd Ogrodniks fyrir yngri börnin. Hana sóttu um 140 manns og var mikil ánægja meðal gesta. Að því loknu stóð sunddeild Skallagríms fyrir ýmsum uppákomum á sundlaugarsvæðinu. Eftir hádegið var skátamessa í Borgarneskirkju og skrúðganga niður í Skallagrímsgarðinn þar sem hátíðardagskrá hófst kl. 14. Tókst hún með miklum ágætum og veðrið sýndi sínar bestu hliðar. Héðinn Unnsteinsson flutti hátíðarávarp dagsins og Anna María Grönfeldt var fjallkona. Hún las ljóð eftir Guðmund Böðvarsson. Ungt fólk var með sérstakan dagskrárþátt: hljómsveitinar Mýgrútur og Klakksvík fluttu nökkur lög hvor og söngkonurnar Magdalena Mazur og Eva Margrét Eiríksdóttir sungu. Það var Birgir Þórisson sem sá um skipulagningu þessa atriðis frá ungu fólki sem tókst afar vel. Freyjukórinn flutti síðan nokkur falleg lög og að lokum komu HARA systur fram. Allt hlaut þetta afar góðar undirtektir gesta sem nutu veðurblíðunnar í garðinum. Að venju sá Kvenfélag Borgarness um kaffiveitingar á hátíðinni og rennur allur ágóði til líknarmála.
Ljósmyndir með frétt: Helgi Helgason og Guðrún Jónsdóttir .