Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi 12. febrúar að ráða Aldísi Örnu Tryggvadóttur í starf sviðsstjóra fjármála- og fjölskyldusviðs. Starfið var auglýst 9. janúar og var umsóknarfrestur til og með 26. janúar. Sextán umsækjendur sóttu um starfið en tveir drógu umsóknir sínar til baka.
Aldís Arna lauk BS prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og prófi í verðbréfaviðskiptum frá sama háskóla árið 2006. Í lokaritgerð sinni fjallaði Aldís Arna um fjárhagslega umbun á vinnustað og reiknaði út virði kaupréttarsamninga æðstu stjórnenda skráðra félaga í Kauphöll Íslands. Árið 2012 lauk Aldís Arna prófi í hagnýtri frönsku fyrir atvinnulífið frá Háskóla Íslands en hún hefur einnig setið fjölda námskeiða hérlendis sem erlendis um fjármál, stjórnun, alþjóðleg samskipti, erlend tungumál, mennningu, mannleg samskipti og heilbrigt líferni.
Aldís Arna starfaði við gerð, greiningu og lestur ársreikninga hjá endurskoðendafyrirtækinu PWC samhliða háskólanámi. Á árunum 2005-2009 starfaði hún sem greinandi fjárfestingarkosta hvers konar hjá fjárfestingarfélaginu Eyri Invest ehf. og vann t.a.m. heildstæðar greiningar og verðmat á félögum með gerð sjóðstreymislíkana. Árið 2010 gegndi Aldís Arna starfi aðstoðarmanns og upplýsingafulltrúa franska sendiherrans á Íslandi en síðastliðin fjögur ár starfaði hún hjá embætti sérstaks saksóknara við rannsókn umfangsmikilla efnahagsbrota.