Frá framkvæmdasviði Borgarbyggðar
Framkvæmdir við leikskólann Uglukletti eru komnar vel á veg en það eru fyrirtækin Nýverk í Borgarnesi og SG-hús á Selfossi sem hafa veg og vanda að sjálfri byggingarframkvæmdinni.
Um er að ræða þriggja deilda leikskóla á einni hæð, en alls er húsið 501 m2 að flatarmáli.
Gert er ráð fyrir að leikskólinn geti rúmað allt að 70 börn samtímis, auk starfsfólks.
Það er teiknistofan Pro-Ark á Selfossi sem hannaði húsið en um verkfræðihönnun sá Verkfræðistofa Árborgar á Selfossi.
Hafist var handa við að steypa sökkla í byrjun desember sl. en gólfplata hússins var steypt þann 28. desember sl. Það var Byggingafélagið Nýverk í Borgarnesi sem sá um sökkla og gólfplötu, en um jarðvinnu sá Borgarverk.
Mánudaginn 15. janúar sl. hófst SG-hús á Selfossi handa við að reisa sjálft húsið, sem er timbureiningahús, klætt að utan með steni-klæðningu. Reiknað er með að lokið verði við að reisa húsið og fullklára það að utan í lok janúar. Að því loknu mun Byggingafélagið Nýverk, fullklára húsið að innan og sjá um smíði og uppsetningu innréttinga. Verklok (að undanskilinni lóð) eru áætluð í maí næstkomandi, en vegna erfiðs tíðarfars í lok síðasta árs, hefur heildarverkinu seinkað um rúmlega mánuð frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í verksamningi.
Hafist hefur verið handa við hönnun lóðarinnar kringum leikskólann, en alls er lóðin 8.256 m2 sem er rífleg stærð. Það er teiknistofan Landlínur í Borgarnesi sem samið hefur verið við um lóðarhönnunina.
Að lokum má geta þess að þessi nýi leikskóli við Ugluklett, mun leysa af hólmi bæði leikskólann við Skallagrímsgötu og við Mávaklett.
Verkefnisstjóri framkvæmdasviðs