Ný bók frá Snorrastofu og útgáfuhátíð

júlí 27, 2007
Á morgun, laugardaginn 28. júlí, mun Snorrastofa vera með útgáfuhátíð þar sem þær bækur sem stofnunin hefur gefið út á umliðnum árum verða kynntar. Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu og Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands munu kynna ritin, sem flest tengjast rannsóknum í Reykholti. Kynningin verður í Bókhlöðu Snorrastofu og hefst kl. 13.00. Dagskráin er í tilefni Reykholtshátíðar, sem haldin er dagana 26.-29. júlí.
Snorrastofa gaf út á dögunum bókina „Den norröna renässansen. Reykholt, Norden och Europa 1150-1300“ („Hin norræna endurreisn. Reykholt, Norðurlönd og Evrópa 1150-1300). Um er að ræða fjórðu bókina í sérstakri ritröð stofnunarinnar sem Bergur Þorgeirsson ritstýrir. Áður hafði Snorrastofa gefið út fjórar bækur um miðaldafræði og hefur því stofnunin gefið í allt út fimm bækur, auk smárita um Snorra Sturluson á fimm tungumálum. Fyrsta bókin, Reykjaholtsmáldagi, var gefin út í samvinnu við Reykholtskirkju, en hinar fjórar tilheyra sjálfri ritröðinni. Flestar bókanna tengjast hinu sk. Reykholtsverkefni, sem lauk nú nýlega.
Norrænir miðaldafræðingar bundust samtökum í sérstöku fræðaneti um rannsóknir á Reykholti og evrópskri ritmenningu, nefnt „Reykholt og den europeiske skriftkulturen“. Frá árinu 2002 hafa árlega verið haldin alþjóðleg málþing vegna verkefnisins í Reykholti, það síðasta haustið 2006. Hin nýútgefna bók er afrakstur þriðja málþingsins, sem haldið var haustið 2004. Til umfjöllunar var tekið það fyrirbæri sem margir fræðimenn hafa kallað endurreisn 12. aldar og gengur undir heitinu norræn endurreisn á okkar menningarsvæði. Í bókinni eru ellefu greinar sem byggja á fyrirlestrum sem fluttir voru á málþinginu og lýsa ólíkum þáttum og viðhorfum til hinnar norrænu endurreisnar. Teknar voru fyrir grundvallarspurningar um notkun og þróun ritmálsins í íslenska miðaldasamfélaginu, með sérstakri áherslu á Snorra Sturluson og búsetu hans í Reykholti. Fræðanetið var fjármagnað af NorFa, síðar NordForsk. Ritstjóri bókarinnar er dr. Karl-Gunnar Johansson, sem starfar við Háskólann í Osló í Noregi.

Share: