Jólaball foreldrafélaga leikskólanna Klettaborgar og Uglukletts var haldið í sal Menntaskóla Borgarfjarðar sunnudaginn 28. desember síðastliðinn.
Foreldrafélögin stóðu fyrir balli þessu í góðu samstarfi við Lionsklúbbinn Öglu og Menntaskóla Borgarfjarðar og tókst afar vel til. Talið er að milli 300 og 400 prúðbúnir gestir hafi dansað kringum jólatréð með tónlistarfólkinu Ásu Hlín og Ívari, sem stjórnuðuð dansinum ásamt þeim Stekkjastaur og Stúf. Einnig kíkti Grýla gamla í heimsókn og vakti það ómælda ánægju yngstu gestanna, sér í lagi þegar hún tilkynnti öllum að hún væri alveg hætt að borða annað en grænmeti.
Þetta var fyrsta jólaball af þessu tagi sem haldið er í Borgarnesi í nokkurn tíma og má fastlega gera ráð fyrir að það verði að árlegum viðburði hér eftir.
Myndir: Sigurður Guðmundsson