Safnahús er eitt menningarhúsanna á nýrri vefsíðu verkefnisins List fyrir alla. Þar er m.a. kynnt sýningin Börn í 100 ár sem er um börn og fyrir börn.
Föstudaginn 3. september sl. var opnuð ný upplýsingasíða um miðlun menningar til barna. Er hún á vegum verkefnisins List fyrir alla, sem er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt. Sýning Safnahúss Börn í 100 ár (hlekkur hér) er hluti þess sem finna má á nýju vefsíðunni. Við hönnun sýningarinnar var sérstaklega hugað að þörfum barna og ungmenna og hefur hún reynst afar góð fyrir skólahópa.
Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um menningarstefnu árið 2013 og snýr hún að aðkomu ríkisins að menningarmálum. Í henni eru fjórir meginþættir: Sköpun og þátttaka í menningarlífi, áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi, mikilvægi samvinnu stjórnvalda við aðila sem starfa á sviði menningar og mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífi. Í menningarstefnu Borgarbyggðar er einnig að finna áherslu á menningarstarf fyrir börn og taka grunnsýningar Safnahúss mið af henni. Eru þær því einkar vel til þess fallnar að taka á móti börnum og ungmennum. Annað verkefni safnanna sem fellur undir þetta er sameiginlegt verkefni Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem ber vinnuheitið Að vera skáld og skapa. Þar vinna tvær ólíkar stofnanir sveitarfélagsins saman að markmiðum menningarstefnu.