Ný sýning í Safnahúsi

september 29, 2020
Featured image for “Ný sýning í Safnahúsi”

Fjölhæfi lista- og handverksmaður Guðmundur Sigurðsson hefur opnað sýningu í Hallsteinssal í Safnahúsi. Vegna aðstæðna var ekki um formlega opnun að ræða en fyrsti dagur sýningarinnar var í gær, 28. september.  Þar má sjá fjölbreytt verk eftir Guðmund sem margir þekkja sem fjölhæfan myndlistarmann en jafnframt fyrrverandi skólastjóra Grunnskólans í Borgarnesi. Einkasýningar Guðmundar fylla tuginn en þátttaka í samsýningum er meiri en hann festir tölu á og hefur hann sýnt á öllum Norðurlöndunum nema í Finnlandi.  Hann er á 85. aldursári og segir þetta verða sína síðustu sýningu í Borgarnesi þar sem hann bjó í rúm fjörutíu ár.  Um list sína segir hann svo:

„Myndsköpun hefur verið mín helsta afþreying allt mitt æviskeið. Kveikjan að myndlistaráhuganum varð í barnæsku þegar ég bjó í sama húsi og hinn mæti myndlistarmaður Höskuldur Björnsson. Í dag er ég félagi í Grósku, myndlistarfélagi Garðabæjar og er það hvatning til að sinna listinni reglulega.“

Um sölusýningu er að ræða. Hún verður opin kl. 13:00 til 18:00 alla virka daga auk þess sem listamaðurinn verður með viðveru þar einhvern næstu laugardaga og verður tilkynnt um það síðar.

Síðasti sýningardagur verður að óbreyttu 26. október n.k.


Share: