Nemendur í unglingadeildum sáu „Hvað EF“

nóvember 9, 2011
Nýverið fóru nemendur í unglingadeildum Grunnskóla Borgarfjarðar á leiksýninguna „Hvað EF“ í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Í byrjun október sáu nemendur Grunnskólans í Borgarnesi leikritið en allir krakkar í 9. og 10. bekkjum í Borgarbyggð áttu þess kost að sjá sýninguna. Sýningin er nýstárleg og fjörug – skemmtifræðsla og forvarnarleikrit, þar sem dregnar eru fram kaldar staðreyndir varðandi neyslu vímuefna, einelti, sjálfsmynd og annað það sem brennur á unglingum á aldrinum 14-16 ára.Að sýningu lokinni gafst áhorfendum tækifæri til að spjalla við leikarana og urðu góðar umræður um efni verksins.
Þess má geta að tveir fyrrum nemendur Kleppjárnsreykja- og Varmalandsskóla leika í sýningunni, Þeir Ævar Þór Benediktsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson en hann er jafnframt einn höfunda.
Það var Íslandsbanki sem bauð til sýningarinnar en Borgarbyggð lagði til rútu fyrir hópinn sem samanstóð af 50 nemendum og 11 foreldrum.
 

Share: