Nefndir lagðar niður og nýjar stofnaðar

janúar 17, 2008

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum 10. janúar síðastliðinn að leggja niður umhverfisnefnd og landbúnaðarnefnd og stofna í þeirra stað sjö manna umhverfis- og
landbúnaðarnefnd. Í hinni nýju umhverfis- og landbúnaðarnefnd koma til með að sitja Guðrún Fjeldsted, Kristján Magnússon, Sigrún Ólafsdóttir, Sigurður Helgason, Sveinbjörn Eyjólfsson sem öll voru í landbúnaðarnefndinni sem lögð var niður, Jenný Lind Egilsdóttir sem áður var í umhverfisnefnd og Ingibjörg Daníelsdóttir sem kemur ný inn.
Starfsmenn nefndarinnar verða Björg Gunnarsdóttir, umhverfis- og kynningarfulltrúi, Sigurjón Jóhannesson, dreifbýlisfulltrúi og Þórvör Embla Guðmundsdóttir dreifbýlisfulltrúi.
Einnig var samþykkt að stofna fjallskilanefnd. Í henni koma til með að sitja formenn allra fjallskila og afréttarnefnda Borgarbyggðar. Með þeirri nefnd koma til með að starfa dreifbýlisfulltrúarnir Þórvör Embla Guðmundsdóttir og Sigurjón Jóhannesson.
 
 
Mynd: Björg Gunnarsdóttir

Share: