Móttaka flóttafólks frá Úkraínu

mars 25, 2022
Featured image for “Móttaka flóttafólks frá Úkraínu”

Sveitarfélagið er í óða önn að undirbúa komu flóttafólks frá Úkraínu. Móttakan er unnin í samstarfi Borgarbyggðar, Rauða Kross Íslands, Háskólans á Bifröst og fleiri aðila. Ríkið hefur þegar gert samning við Háskólann á Bifröst sem mun leggja til herbergi og íbúðir í verkefnið. Borgarbyggð mun halda utan um móttökuna í samstarfi við Rauða Kross Íslands og sjálfboðaliða, m.a. tryggja samgöngur, tómstundir fyrir börn og fullorðna, sálrænan stuðning og aðra þjónustu. Um er að ræða skammtímaúrræði sem felur í sér að flóttafólkið mun dvelja í Borgarbyggð, á Bifröst í allt að 12 vikur á meðan unnið er að því að finna þeim varanleg búsetuúrræði.

Gengið hefur verið frá ráðningu Heiðrúnar Helgu Bjarnadóttur í tímabundið starf sem verkefnastjóra, og mun hún annast utanumhald verkefnisins ásamt þverfaglegu teymi fólks. Einnig hefur verið auglýst eftir félagsráðgjafa í verkefnið.

Ljóst er að það verður þörf á ýmissi aðstoð íbúa en fljótlega mun liggja fyrir hvert hægt verður að snúa sér til að bjóða fram aðstoð og hvaða aðstoðar er þörf.

Við skulum taka vel á móti gestum okkar með hvaða hætti sem okkur er mögulegt, veitum því stuðning og hlýju á þessum erfiðum og flóknum tímum.


Share: