Minnum á opið hús um deiliskipulag og knatthús 19. júní

júní 18, 2024
Featured image for “Minnum á opið hús um deiliskipulag og knatthús 19. júní”

Minnum á opna húsið í ráðhúsi Borgarbyggðar miðvikudaginn 19. júní milli kl. 17 og 20 um tillögu að breytingu aðalskipulags og að nýju deiliskipulagi fyrir íþróttasvæðið við Þorsteinsgötu í Borgarnesi. Þá verða kynnt hönnunargögn, svo sem um útlit og staðsetningu, fyrir nýtt fjölnota íþróttahús – knatthús.

Opna húsið verður á þriðju hæð í ráðhúsi Borgarbyggðar við Digranesgötu í Borgarnesi. Á staðnum verða stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins ásamt hönnuðum og ráðgjöfum frá EFLU og Landmótun.

Eins og fram kom í boðun á opna húsið í byrjun mánaðarins þá ákvað Borgarbyggð að láta vinna vinnslutillögu til kynningar og umsagnar í Skipulagsgátt. Reikna má með að deiliskipulagstillaga verði tekin fyrir hjá sveitarfélaginu í sumnar. Í kjölfarið er áætlað að hún verði auglýst í Skipulagsgátt og gefst þá a.m.k. sex vikna frestur til að skila inn athugasemdum.

Íbúar eru hvattir til að koma á opna húsið og halda áfram að kynna sér þau áform sem uppi eru um nýtt fjölnota íþróttahús – knatthús og uppbyggingu á íþróttasvæðinu.


Share: