Minningarathöfn um frönsku sjómennina

september 27, 2012
Í síðustu viku var haldin minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði um frönsku sjómennina sem fórust með hafrannsóknaskipinu Pourquoi pas? við Mýrar í september 1936. Stjórnandi skipsins var Dr. Jean-Baptiste Charcot sem var heimsþekktur fyrir rannsóknir sínar m.a. í norðurhöfum. Charcot fórst með skipinu ásamt nánast allri áhöfn þess, aðeins einn maður, Eugene Gonidec komst af. Slysið vakti mikla samúð með íslensku þjóðinni og þess hefur oft verið minnst á tímamótum síðan.
Það var M. Marc Bouteille sendiherra Frakklands á Íslandi sem stýrði athöfninni sem fór fram í fallegu veðri við minnismerki um drukknaða franska sjómenn. Leikið var á fiðlu og ljóð og ávörp flutt á ensku, frönsku og íslensku. Í máli sendiherrans kom m.a. fram að Charcot hefði komið nokkuð oft til Íslands allt frá árinu 1902. Hann hefði átt hér góða vini og haldið fyrirlestra hér um ferðir sínar og rannsóknir. Þannig væri hann á vissan hátt tákn fyrir vináttuna á milli Frakklands og Íslands. Meðal þeirra sem viðstaddir voru athöfnina var Anne-Marie-Vallin Charcot, barnabarn Dr. Charcot, en hún hefur komið oft til landsins í minningu afa síns, haldið fyrirlestra um hann og einnig ferðast vestur í Straumfjörð.
 
Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss var viðstödd minningarathöfnina fyrir hönd Borgarbyggðar, en tengsl héraðsins við þennan harmræna atburð hafa ævinlega verið sterk. Pourquoi pas? fórst við skerið Hnokka fyrir utan Álftanes og Straumfjörð á Mýrum og manninum sem komst lífs af var bjargað af Kristjáni Þórólfssyni sem vann þar mikið afrek aðeins 18 ára gamall. Hlynnt var að Gonidec í Straumfirði eftir slysið og hélt hann sambandi við velgjörðarmenn sína þar til hinstu stundar.
Meðfylgjandi mynd var tekin við minningarathöfnina. Frá vinstri: Helge Snorri Seljeseth fiðluleikari, M. Marc Bouteille sendiherra og Père Jacques Rolland. Myndataka: Íris Þórarinsdóttir.
 

Share: