Miklar framkvæmdir í Borgarbyggð árið 2006

desember 13, 2005

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2006 samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2006 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja sveitarfélagsins verði 1216 milljónir, en þar af eru skatttekjur og framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga rúmar 942 milljónir. Þá er gert ráð fyrir að rekstrargjöld verði 1152 milljónir, rekstarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er því jákvæð um tæpar 64 milljónir. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er afgangur frá rekstri tæp 1 milljón. Veltufé frá rekstri er áætlað 104 milljónir eða 8.6% af heildartekjum og hefur veltufé farið stöðugt vaxandi síðastliðin þrjú ár.
Skatttekjur sveitarfélagsins hækka um 12% á milli ára miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2005. Álagningaprósenta útsvars er óbreytt, álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt, en sorphirðugjöld hækka um 10%.
Stærstum hluta rekstrarútgjalda, eða 584 milljónum er varið til fræðslu- og uppeldismála. Nemendum við grunnskóla sveitarfélagsins í Borgarnesi og á Varmalandi hefur fjölgað á árinu 2005 um tæplega 20 það sem af er. Borgarbyggð hefur staðið vel að rekstri grunnskóla, en í báðum skólunum er boðið upp á mötuneyti og heilsdagsvistun. Borgarbyggð hefur rekið þrjá leikskóla. Á árinu 2006 tekur nýr leikskóli til starfa í Borgarnesi. Til að byrja með verður skólinn hýstur í bráðabirgðahúsnæði, en síðan mun hann flytja í nýtt húsnæði í Bjargslandi í upphafi árs 2007. Aðrir málaflokkar sem taka hvað mest til sín í rekstri eru æskulýðs- og íþróttamál 114 milljónir, sameiginlegur kostnaður 105 milljónir, félagsþjónusta 65 milljónir, menningarmál 38 milljónir og umhverfis- samgöngu- og skipulagsmál 37 milljónir.
Á árinu 2006 er áætlað að verja 265 milljónum til nýframkvæmda og fjárfestinga. Rúmum 112 milljónum verður varið til framkvæmda við skólamannvirki, stærsti hluti þess fjármagns fer til nýbyggingar leikskóla í Borgarnesi auk þess sem hafin verður undirbúningur að stækkun leikskólans á Bifröst og grunnskólans á Varmalandi. Þá verður varið tæpum 100 milljónum til gatnagerðar í Borgarnesi og á Varmalandi, en áætlaðar tekjur af gatnagerðargjöldum eru 60 milljónir. Stærstu framkvæmdir í gatnagerð eru í gamla miðbænum í Borgarnesi, í Bjargslandi, við Vallarás og á Varmalandi. Loks er gert ráð fyrir að fjárfesta í byggingarlandi við Borgarnes, en á árinu 2005 hefur verið úthlutað lóðum undir um 130 íbúðir í Borgarnesi. Að síðustu má nefna að gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélagsins að framkvæmdum við reiðhöll í Borgarnesi, Landnámssetur í Borgarnesi, leiksvæði á Bifröst, leitarmannaskála og kaupum á nýjum slökkvibíl. Þá er stefnt að því að ljúka breytingum á nýju ráðhúsi á árinu 2006.
Gert er ráð fyrir að ný lántaka á árinu 2006 verði alls 215 milljónir og að afborganir eldri lána verði rúmar 170 milljónir. Því er áætlað að skuldir sveitarfélagsins munu aukast um 45 milljónir. Heildarskuldir og skuldbindingar Borgarbyggðar verði 1633 milljónir eða um 600 þúsund á hvern íbúa sem er töluvert undir landsmeðaltali.
Íbúum í Borgarbyggð hefur fjölgað töluvert á árinu 2005 og allt bendir til þess að sú fjölgun haldi áfram af ennþá meiri krafti á árinu 2006. Fjölgun íbúa kallar vissulega á eflingu þjónustu og nýframkvæmdir hjá sveitarfélaginu. Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2006 tekur mið af þessu, hún gerir ráð fyrir uppbyggingu á þjónustu sveitarfélagsins, en jafnframt að aðhaldi verði gætt í rekstri þess. En áætlunin endurspeglar líka bjartsýni á framtíð byggðarlagsins þar sem ráðist er í stórar framkvæmdir og fjárfestingar sem eru forsenda fyrir íbúafjölgun.
 

Share: