Mikil ánægja íbúa Borgarbyggðar með starfsemi leikskóla

febrúar 6, 2020
Featured image for “Mikil ánægja íbúa Borgarbyggðar með starfsemi leikskóla”

Leikskólar Borgarbyggðar lenda í fjórða sæti þegar spurt er um ánægju með starfsemi leikskóla sveitarfélagsins á heildina litið í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2019 fram til byrjun árs 2020.

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar á mælingum milli ára.

Í könnuninni er meðal annars greining á svörum eftir kyni, aldri, fjölskyldusamsetningu og tekjum. Jafnframt er greint hvernig þeir sem nota tiltekna þjónustu svara í samanburði við aðra svo sem íbúar með börn í leik- og grunnskóla, þeir sem nýta íþróttaaðstöðu, eldri borgarar og aðstandendur þeirra, fatlað fólk og aðstandendur þeirra.

Í heildina litið eru niðurstöður könnunarinnar að hækka milli ára fyrir Borgarbyggð. Þar má helst nefna að það dregur töluvert úr óánægju með skipulagsmál og ánægja með gæði umhverfis eykst.

Þjónustukönnunin var lögð fram til kynningar í byggðarráði Borgarbyggðar í síðustu viku. Niðurstöður könnunarinnar verða áfram rýndar hjá nefndum og sviðum bæjarins og kynntar forstöðumönnum á fundi til að geta þróað og bætt þjónustu Borgarbyggðar enn betur.

Niðurstöður fyrir Borgarbyggð úr þjónustukönnuninni verða aðgengilegar hér á vef Borgarbyggðar.


Share: