Mikið líf í Safnahúsi

september 22, 2009
Mjög góð aðsókn hefur verið að Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi í sumar og í ágústmánuði einum komu um 1400 gestir. Alls komu um 8000 manns í húsið fyrstu átta mánuði ársins sem er um 20 % aukning frá því í fyrra. Þessa dagana vekur mikla athygli sýning ungs listamanns sem ættaður er úr Borgarnesi, Matthíasar Margrétarsonar.
Matthías hefur þegar stundað myndlistarnám í nokkurn tíma þótt hann sé einungis 11 ára gamall og heldur hér sína fyrstu myndlistarsýningu, í anddyri safnanna.
 
Sýningin Börn í 100 ár hefur notið mikilla vinsælda í sumar, en hún er fastasýning og er opin alla daga á sumrin og eftir samkomulagi fyrir hópa á veturna. Hönnunar- og handverkssýning Katrínar Jóhannesdóttur sem var í Hallsteinssal (dregur nafn af Hallsteini Sveinssyni) í sumar hlaut afar góða aðsókn. Sú sýning var uppi í 10 vikur og dró að sér rúmlega þúsund gesti á þeim tíma. Aðsókn að bókasafninu hefur aukist jafnt og þétt og þangað koma nú á bilinu 7-8 þúsund gestir á ári. Heimsóknir í héraðsskjalasafnið eru á annað hundrað á ári auk fyrirspurna í tölvupósti og síma.
 
Nýverið var opnaður ljósmyndavefur á vegum safnsins og hefur hann hlotið góðar viðtökur. Til að finna vefinn er farið inn á heimasíðu Safnahúss: www.safnahus.is og smellt á ljósmyndavefur á stiku vinstra megin á síðunni. Í Hallsteinssal stendur núna yfir sýning á vegum héraðsskjalasafnsins: Rammar. Þar eru til sýnis gamlar myndir úr Borgarfirði, sem komið hafa til safnsins í römmunum. Þessar myndir settu sinn svip á heimili í héraðinu á árum áður og þeim fylgir andblær gamalla tíma.
 
Ljósmyndir með frétt: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: