Reykholtskirkja var troðfull af fólki í gærkvöldi þegar Freyjukórinn hélt þar jólatónleika sína undir stjórn síns ástsæla leiðtoga Zsuzsönnu Budai. Kórinn hafði að þessu sinni fengið tvo landsþekkta listamenn með sér, þau Moniku Abendroth og Pál Óskar Hjámtýsson og í kynningu kom fram að dagsetning tónleikanna hafði verið ákveðin með um árs fyrirvara.
Á dagskrá voru aðventulög af ýmsu tagi, en einnig fluttu Páll Óskar og Monika lög af nýjum diski þess fyrrnefnda og hafa slík lög ekki áður verið flutt við hörpuundirleik einn saman. Í lok tónleikanna fékk kórinn og gestir hans mikið lófaklapp og þétt biðröð myndaðist síðan við borð þar sem Páll Óskar og Monika árituðu diska sína fyrir þá sem vildu.
Freyjukórinn réðist þarna í metnaðarfullt verkefni tónleikagestum til óblandinnar ánægju. Og skammt er að bíða næstu stórtónleika á þessu sviði þar sem flestir kórar héraðsins koma fram á hátíðartónleikum Sparisjóðs Mýrasýslu þann 12. desember næstkomandi. Þeir tónleikar verða einnig í Reykholtskirkju, sem sannað hefur gildi sitt sem frábært hús til hvers kyns tónlistarflutnings.
Ljósmyndir með frétt: Pétur Davíðsson og Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir