Miðbæjarleikarnir í afar frjálsum íþróttum

september 18, 2003
Páll Brynjarsson bæjarstjóri lét í minni pokann fyrir bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússyni.
Síðastliðinn laugardag hélt menningarmálanefnd Miðbæjarsamtakanna í Borgarnesi (sem reyndar eru ekki til) í fyrsta sinn verðandi árlega miðbæjarleika í afar frjálsum íþróttum og í tengslum við þá töðugjöld Miðbæjarsamtakanna til að fagna því að heyskap er nú lokið í flestum húsagörðum á svæðinu. Aðild að Miðbæjarsamtökunum (ef þau væru til) eiga íbúar við Skúlagötu, Egilsgötu, Brákarbraut, Bröttugötu, Helgugötu og Gunnlaugsgötu og fjölmenntu þeir til leikanna en nærri má geta að þátttakendur hafi verið um 100 manns. Keppt var í ýmsum þjóðlegum íþróttagreinum, svosem Litlubrákareyjarhlaupi eftir að byrjað var að flæða að, stígvélakasti, rólustökki, fjöruspretthlaupi, dekkjakasti og brákarkasti þar sem markmiðið var að hæfa líkneski sem útbúið var af Þorgerði Brák og var á reki í Brákarsundi.

Veitt voru flest stig fyrir að hæfa hana á milli herðablaðanna líkt og Skallagrímur gerði á sínum tíma en eins og flestir vita eru um þúsund ár síðan fyrst var keppt í þessari grein í Borgarnesi. Þá var kappdrykkja í minningu Egils Skallagrímssonar en í takt við vímuvarnarstefnu Borgarbyggðar gátu keppendur valið um hvort þeir drukku hálfan líter af bjór eða sama magn af mysu. Í þessari grein var eingöngu keppt í meistaraflokki en í flestum öðrum var keppt í opnum flokki eða eingöngu barnaflokki. Sérstakir gestir á leikunum voru bæjarstjóri Borgarbyggðar og í fylgd með honum bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon. Voru útbúnir sérstakir bæjarstjóraleikar af því tilefni þar sem bæjarstjórarnir kepptu í hringjakasti og stultuhlaupi. Þeir skildu jafnir í hringjakastinu en í stultuhlaupinu sigraði Árni með yfirburðum og hafa Miðbæjarsamtökin af því tilefni ályktað og beina því til bæjarstjóra Borgarbyggðar að hann taki rækilega til í sínum ranni og búi sig undir að reka af sér slyðruorðið að ári.
Að leikum loknum var tekið til við töðugjöld og boðið upp á grillveislu í gömlu pakkhúsunum í Englendingavík hvar lambakjöt var á milli tannana á fólki. Úrslit leikanna urðu annars þau að Skúlagata sigraði naumlega og hlaut að launum veglegan farandgrip en Gunnlaugsgata varð í neðsta sæti og bar úr býtum geitungabú í skammarverðlaun. Þá var Ingimundur Grétarsson valinn íþróttamaður Miðbæjarsamtakanna 2003 en hann sýndi ótrúleg tilþrif í hinum ýmsustu greinum.
 

Share: