Metaðsókn í Skallagrímsgarði

júní 20, 2005
Metþátttaka var á 17. júní hátíðarhöldum í Skallagrímsgarði sem fram fóru s.l. föstudag í einstöku blíðviðri.
 
 
 
 
 
 
 
Um morguninn var hefðbundið hlaup á Skallagrímsvelli og sundlaugin var opin sem fjölmargir nýttu sér.
Eftir hádegi var Skátamessa og síðan var gengið í mjög fjölmennri skrúðgöngu frá kirkjunni. Skátar og Götuleikhús vinnuskólans leiddu gönguna ásamt Stefáni Skarphéðinssyni sýslumanni.
 
Hátíðardagskrá tókst einstaklega vel og kunnu gestir vel að meta dagskrána sem boðið var upp á í Skallagrímsgarði.
Veðrið lék við þjóðhátíðargesti í orðsins fyllstu merkingu og var fólk rólegt í garðinum fram eftir degi og þáði veitingar hjá kvenfélagskonum.
 
Mikið var um ferðafólk á svæðinu um helgina og má segja að Borgarfjöður allur hafi verið yfirfullur af ferðafólki þessa helgi.
Um 2.000 manns komu í sundlaugina í Borgarnesi á laugardag og sunnudag og þurfti um tíma að loka aðgengi í laugina vegna fjölda gesta og skorts á búningsaðstöðu.
 
Um næstu helgi heldur svo fjörið áfram en þá verður KB- bankamótið haldið á Skallagrímsvelli með um 900 keppendum auk þeirra fjölmörgu gesta okkar sem sækja okkur heim í tengslum við mótið.
ij.
 

Share: