Beðið ákvörðunar ráðherra
Ytri stýrihópur um stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi bíður nú niðurstöðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra varðandi umsókn hópsins um stofnun einkarekins, þriggja ára menntaskóla frá og með næsta hausti.
Fyrirhugaður menntaskóli er samstarfsverkefni Borgarbyggaðar, Borgarfjarðarsveitar, Viðskiptaháskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Í hópnum eru Ágúst Sigurðsson frá Hvanneyri, Helga Halldórsdóttir frá Borgarbyggð, Runólfur Ágústsson frá Bifröst og Þórvör Embla Guðmundsdóttir frá Borgarfjarðarsveit.
Vinna við námsskrá skólans, húsnæði og fjármögnun er á lokastigi.
Háskólaráð Borgarfjarðar ályktar
Á fundi sínum í síðustu viku álykaði Háskólaráð Borgarfjarðar um stuðning við verkefnið en áður höfðu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi gert hið sama. Í álykun ráðsins segir:
“Háskólaráð Borgarfjarðar telur afar mikilvægt að stofnaður verði menntaskóli í Borgarnesi eins og nú eru hugmyndir um. Háskólaráð telur að menntun ungmenna í heimabyggð sé grundvallaratriði í áframhaldandi uppbyggingu öflugs sveitarfélags og háskólasamfélags í Borgarfirði.
Samfélag þetta telur nú um 3.500 manns en sé tekið tillit til dulinnar búsetu og þess fjölda háskólanema sem búsettir eru á Bifröst og Hvanneyri má áætla að þessi tala sé rúmlega 4.000 manns. Það er ljóst að möguleikar á framhaldsnámi ungmenna skipta miklu máli þegar fólk velur sér búsetu. Það er ekki ásættanlegt að senda 16 ára ungmenni sem eru ólögráða, til langtgímadvalar fjarri fjölskyldu og heimahögum þar sem allar aðstæður eru fyrir stofnun og starfrækslu framhaldsskóla. Eins og nú háttar til í Borgarfirði fara 34% útskrifaðra grunnskólanema til námsdvalar annarsstaðar en á Vesturlandi. 18% þeirra fara ekki í framhaldsnám. Þessu þarf að breyta. Með stofnun menntaskóla í Borgarnesi verður mögulegt fyrir ungmenni að dvelja í heimahúsum og stunda sitt nám hvort sem um er að ræða dreifbýli Borgarfjarðar eða þéttbýli í Borgarnesi, Bifröst og Hvanneyri.
Háskólaráð Borgarfjarðar skorar á menntamálaráðherra og yfirvöld að taka jákvætt í hugmyndir Borgfirðinga um stofnun menntaskóla í Borgarfirði og lýsir yfir fullum stuðningi við framkomanar hugmyndir þar sem gert er ráð fyrir stofnun skólans strax haustið 2006.”
Meðfylgjandi er mynd af húsnæði Menntaskóla Borgarfjarðar sem hannað er af Kurt og pí, arkitektum.