Borgarbyggð og Akraneskaupstaður undirrituðu, síðastliðinn föstudag, viljayfirlýsingu um samstarf í menningarmálum og samkomulag um bóka- og ljósmyndasafn. Meðal þess sem kveðið er á um í viljayfirlýsingunni er að sveitarfélögin tvö ætli sér að koma á almennu samstarfi um menningarmál með því að miðla hugmyndum og upplýsingum um menningarverkefni milli íbúa og menningaraðila á báðum stöðum. Þetta verður m.a. gert með því að greina frá menningarviðburðum t.a.m. í gegnum heimasíður sveitarfélaganna og með öðrum þeim hætti sem hentugur er hverju sinni.
Sveitarfélögin hyggjast einnig stuðla að samstarfi milli rekstraraðila í menningartengdri þjónustu og listamanna í sveitarfélögunum eftir því sem tök eru á hverju sinni. Þetta verður m.a. gert með því að stuðla að því eftir aðstæðum hverju sinni að menningarviðburðir eins og tónleikar, myndlistarsýningar og aðrir viðburðir séu gerðir aðgengilegir fyrir íbúa beggja sveitarfélaga.
Sveitarfélögin taka upp samstarf um aðgengi íbúa að bókasöfnum sveitarfélaganna, þannig að bókasafnsskírteini í hvoru sveitarfélagi fyrir sig, gildir hér eftir í báðum sveitarfélögunum. Einnig verði skoðuð sameiginleg nýting gagnabanka ljósmyndasafna sveitarfélaganna og samnýting þekkingar starfsmanna, báðum söfnunum til hagsbóta.
Á myndinni eru formenn menningarnefnda sveitarfélaganna þau Magnús Þór Hafsteinsson frá Akranesi og Sigríður Björk Jónsdóttir frá Borgarbyggð. Ljósmyndina tók Kolbeinn Ó. Proppé blaðamaður Skessuhorns.