M/S Hvítá MB 8 komin í Borgarnes

maí 8, 2009
Þeir Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóri og Sigvaldi Arason í Borgarnesi hafa að undanförnu gengist fyrir því að skipslíkön tengd útgerðarsögu Borgnesinga fari í eigu Byggðasafns Borgfirðinga í Safnahúsi. Í ágúst í fyrra komu þeir færandi hendi með Eldborgina sem var gerð út frá Borgarnesi í meira en tvo áratugi og á sér því mikilvægan sess í atvinnusögu héraðsins. Í dag var það Hvítáin sem kom í hús og þeir félagar hafa ekki gefist upp því næst verður það Hafborgin sem verið er að smíða líkan af og verður síðan færð heim í Borgarnes.
Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu Hvítárinnar og fór athöfnin fram á stjórnarfundi hjá Faxaflóahöfnum sem eru einn styrktaraðila verkefnisins. Á myndinni frá vinstri: Sigvaldi Arason, Gunnar Ólafsson og kona hans Dýrleif Hallgrímsdóttir ásamt Páli S. Brynjarssyni sveitarstjóra Borgarbyggðar.
Bæði líkönin sem komin eru verða höfð til sýnis á bæjarskrifstofunum næstu vikur. Hér má sjá nánari fróðleik um sögu Hvítárinnar.
 
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: