Loftorka kaupir Steypustöðina hf.

júní 13, 2003
Loftorka í Borgarnesi ehf hefur keypt 100% hlut í Basalti ehf sem á meðal annars Steypustöðina hf, Steypustöð Suðurlands hf og Vinnuvélar hf sem sjá um malarvinnslu að Esjubergi og Norðurkoti á Kjalarnesi. Basalt ehf. Var í eigu 19 Byggingaverktaka sem starfandi eru í byggingariðnaði. Um fjörtíu manns starfa hjá Basalti ehf.
Að sögn Konráðs Andréssonar hjá Loftorku er tilgangurinn með kaupunum á Basalti ehf. sá að auka vægi fyrirtækisins á íslenskum byggingamarkaði. “Við sáum þarna tækifæri til að komast í samband við fleiri viðskiptavini. Mest af því sem við framleiðum hér uppfrá er í föstu formi, þ.e. húseiningar og rör en fyrirtæki Basalts eru eingöngu í framleiðslu á steypu og steypuefni. Það eru hinsvegar að hluta til sömu aðilar sem eru í viðskiptum við bæði fyrirtækin og við sjáum þarna augljós samlegðaráhrif,” segir Konráð.
Konráð segir mikið að gera hjá Loftorku um þessar mundir á öllum sviðum, hvort sem er í einingaframleiðslu, rörasteypu eða steinsteypuframleiðslu. Fyrirtækið er um þessar mundir að stækka röraframleiðslu sína verulega annast m.a. alla röraframeliðslu fyrir Kópavogsbæ. Þá var Loftorka með lægsta boð í röraframleiðslu fyrir Reykjavíkurborg til næstu þriggja ára en það er verk upp á um 100 milljónir. Um sjötíu manns vinna nú hjá Loftorku en með kaupunum á Basalti eru starfsmennirnir orðnir um 110.
Þess má geta að Steypustöðin hf er eitt þeirra fyrirtækja sem á í viðræðum við Einkavæðinganefnd um kaup á Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi en Konráð segir ekki ljóst hvort nýir eigendur Steypustöðvarinnar haldi áfram í því ferli, það muni skýrast á næstu dögum.
Það var Sparisjóður Mýrasýslu sem annaðist kaupin á Basalti ehf fyrir hönd Loftorku.

Share: