Föstudaginn 6. júní ýtti Katrín Jakobsdóttir alþingismaður sumarverkefni SAMAN-hópsins sumarið 2008 úr vör en það er ljósmyndasamkeppnin ,,Fjölskyldan í fókus“. Keppnin stendur til 8. ágúst 2008 og er ætlað að vekja athygli á að samverustundir með fjölskyldunni eru dýrmæt augnablik í lífi hvers og eins.
Fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum eru hvattar til að senda myndir í keppnina af fjölskyldunni saman, við leik og störf, vetur, sumar, vor og haust. Óskað er eftir myndum af fjölskyldum við hversdagslegar athafnir jafnt og myndum frá spennandi ferðum og ævintýrum. Myndir eru sendar í keppnina á heimasíðunni www.samanhopurinn.is
Kannanir sýna að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga kost á. Börn sem verja miklum tíma með fjölskyldunni, fá mikinn stuðning en jafnframt aðhald frá foreldrum eru að öllu jöfnu ólíklegri til að neyta áfengis- og annarra vímuefna. Þau eru einnig líklegri til að standast neikvæðan hópþrýsting.
Með ljósmyndasamkeppninni ,,Fjölskyldan í fókus“ vill SAMAN-hópurinn vekja athygli á öllum þeim fjölmörgu fjölskyldum sem eiga góðar stundir saman. Ennfremur viljum við minna fjölskyldur á að setja samverustundirnar á dagskrá og varðveita góðar minningar með því að festa þær á filmu því þannig getum við auðveldlega upplifað góðar stundir aftur og aftur.
Dómnefnd skipuð 5 fulltrúum mun velja bestu myndina en einnig verða veitt aukaverðlaun. Felix Bergsson er formaður dómnefndar.
Aðalvinningurinn er myndavél Canon 400 SLR með 2 aukalinsum og öðrum aukabúnaði sem BT gefur.
Kastljósið mun í sumar birta sýnishorn af þeim myndum sem berast í keppnina. Úrslit verða síðan kynnt í þættinum í lok ágúst.
(Fréttatilkynning)