Ljósleiðaravæðing í Borgarbyggð

desember 12, 2017
Featured image for “Ljósleiðaravæðing í Borgarbyggð”

Stutt yfirlit um stöðu mála hvað varðar lagningu ljósleiðara í Borgarbyggð

Borgarbyggð er eitt þeirra sveitarfélaga þar sem lagning ljósleiðara er skammt á veg komin. Ljósnet er til staðar í Borgarnesi, á Hvanneyri og í Reykholti. Í ljósnetslausninni eru koparþræðir símans notaðir til að koma fjarskiptasendingum á áfangastað. Það er ákveðin aðferð sem hefur samt sín takmörk. Háskólinn á Bifröst er einnig ágætlega staddur hvað stöðu fjarskipta varðar. Ekki þarf hinsvegar að fjölyrða um stöðu fjarskipta í dreifbýli Borgarbyggðar. Þau eru víða mjög slæm og í raun óásættanleg. Því er lagning ljósleiðara um dreifbýli Borgarbyggðar eitt af þeim stóru verkefnum sem eru framundan til að styrkja atvinnulíf og búsetu í héraðinu. Það á bæði við um hinn almenna íbúa svo og rekstur fyrirtækja. Þar er ekki síst miðað við um hin mörgu og vaxandi fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eiga mikið undir netsambandi við umheiminn.

Rétt þykir að skýra aðeins frá því sem hefur verið að gerast í þessum málum að undanförnu þannig að íbúar sveitarfélagsins séu upplýstir um stöðuna eins og hún er. Unnið er að ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins á tvennan hátt:

  1. Gagnaveita Reykjavíkur mun leggja ljósleiðara í þéttbýlisstaðina Borgarnes og Hvanneyri. Fyrirtækið metur það fjárhagslega arðbært að leggja ljósleiðara á þessa staði. Gagnaveitan annast þetta verkefni alfarið á sinn kostnað. Sveitarfélagið kemur þar hvergi að verki, hvorki varðandi framkvæmdir eða kostnað, nema hvað varðar veitingu framkvæmdaleyfis. Þessu verki skal vera lokið á næsta ári samkvæmt þeim áætlunum sem unnið er eftir. Ekki er annað að sjá en að það eigi að ganga upp. Framkvæmdir eru þegar hafnar í Borgarnesi og miðar vel það best er vitað. Miðstöð fyrir ljósleiðarann í Borgarnesi verður í íþróttamiðstöðinni og á Hvanneyri í Ásgarði.
  2. Ríkisvaldið hefur mótað þá stefnu að verkefninu „Ísland ljóstengt“ skuli vera lokið á árinu 2020. Þá eiga 99,9% heimila og fyrirtækja í dreifbýli að hafa möguleika á að tengjast ljósleiðara. Á undanförnum árum hefur ríkið árlega lagt nær 500 m.kr. til styrktar þessu verkefni. Lagning ljósleiðara í dreifbýli Borgarbyggðar verður unnin með hliðsjón af þessari áætlun. Ríkisvaldið styrkir lagningu ljósleiðara í dreifbýli landsins í gegnum Fjarskiptasjóð. Á síðasta ári var auglýst eftir hvort eitthvað fyrirtæki vildi leggja ljósleiðara um dreifbýli Borgarbyggðar á eigin kostnað. Við auglýsingunni bárust engin svör. Það er skilyrði fyrir styrkveitingu Fjarskiptasjóðs að gengið hafi verið úr skugga um þetta áður en sótt var um styrk úr Fjarskiptasjóði. Í dreifbýli Borgarbyggðar eru rúmlega 500 svonefndir tengistaðir sem eru styrkhæfir úr sjóðnum.

Lagning ljósleiðara um dreifbýli hins víðlenda sveitarfélags Borgarbyggðar er mikið og kostnaðarsamt verkefni. Samkvæmt fyrirliggjandi kostnaðaráætlun mun heildarkostnaður þess vera nálægt einum milljarði króna. Hönnun ljósleiðarakerfis í dreifbýli Borgarbyggðar var lokið fyrr á þessu ári. Lagning ljósleiðara er fjármögnuð á þrjá vegu:

  1. Styrkir úr Fjarskiptasjóði,
  2. Greiðsla fyrir hvern tengistað frá þeim sem velur að taka ljósleiðaratengingu inn (250.000 kr. með VSK.)
  3. Framlag sveitarfélagsins sem nemur því sem upp á vantar. Framlag sveitarfélagsins verður svo endurgreitt með afnotagjöldum af ljósleiðaranetinu.

Lagning ljósleiðara frá stofnlögn að sumarbústöðum verður gerð á kostnað eigenda þeirra. Opinberir aðila styrkja ekki tengingu til sumarbústaða.

Fjarskiptasjóður styrkir ekki tengingar sem eru frágengnar áður en styrkfé er úthlutað. Hann hefur unnið eftir þeirri verklýsingu að ljósleiðarinn skuli lagður fyrst þar sem það sé ódýrast fyrir sjóðinn. Þar sem lagning ljósleiðara um Borgarbyggð er mjög dýrt verkefni þá hefur sú leið verið valin að leitast við að fá sem hæsta styrki úr Fjarskiptasjóði á hvern tengipunkt. Borgarbyggð fékk úthlutað styrkjum til 12 tengipunkta í janúar sl. og styrkjum til 66 tengipunkta í nóvember sl. Samtals nema styrkirnir um 36 m.kr. Einnig hefur Borgarbyggð fengið 27 m.kr. í styrki úr byggðatengdum styrkjum til þessa verkefnis. Sl. sumar voru lögð 25 km. af rörum í Reykholtsdal þar sem RARIK var að leggja rafstrengi í jörð til að vinna sér í haginn og flýta fyrir. Lagt er til við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 að varið verði 100 m.kr. úr sveitarsjóði til viðbótar fyrrgreindum fjárhæðum til þessa verkefnis á næsta ári. Því verður hægt að hefjast handa við lagningu leiðarans af fullum krafti. Við næstu úthlutun úr Fjarskiptasjóði verður Borgarbyggð líklega eitt sveitarfélaga eftir í Vesturlandspottinum. Því ættu styrkupphæðir að vera í samræmi við framkvæmdakostnað. Stefnt er að því að setja upp sérstaka heimasíðu fyrir verkefnið, sem nefnt hefur verið „Borgarljós“. Hún verður tengd heimasíðu Borgarbyggðar. Á síðunni verður hægt að upplýsa íbúa héraðsins um hvernig verkefninu vindur fram hverju sinni.


Share: