Ljósin tendruð á jólatrénu um helgina í Skallagrímsgarði

desember 5, 2019
Featured image for “Ljósin tendruð á jólatrénu um helgina í Skallagrímsgarði”

Fyrsti sunnudagur í aðventu var um helgina og af því tilefni voru ljósin tendruð á jólatrénu í Skallagrímsgarði. Borgarbyggð þakkar öllum þeim sem tóku þátt en áætlað er að um þúsund manns hafi lagt leið sína í Skallagrímsgarð á sunnudaginn.

Jólatréð þetta árið kemur úr heimabyggð en Guðleif B. Andrésdóttir gaf Borgarbyggð grenitré sem var farið að skyggja á útsýnið úr húsinu hennar við Gunnlaugsgötu. Endurnýting grenitrésins hefur vakið mikla lukku en til fróðleiks er tréð 15 metra hátt og um 40 ára gamalt.

Dagskráin var með hefðbundnum hætti, söngur, dans og jólasveinar. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, formaður Byggðarráðs flutti ávarp. Jólalögin voru að þessu sinni sungin af Barnakór Borgarness undir stjórn Steinunnar Árnadóttur og Söngleikjadeild Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Jólasveinar komu til byggða og glöddu börnin með söng og gjöfum.

Nemendur Gunnskólans í Borgarnesi buðu upp á heitt kakó og nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar buðu upp á jólasmákökur.

Borgarbyggð vill koma á framfæri þökkum til allra sem komu að dagskránni. Sérstakar þakkir fá starfsmenn Áhaldahúsins fyrir þeirra framlag en tréð í ár er hið glæsilegasta þótt víða væri leitað. 


Share: