Leikskólinn Ugluklettur opnaði í dag

ágúst 14, 2007
Leikskólinn Ugluklettur tekur til starfa í dag, 14. ágúst, þegar fyrstu nemendur skólans mættu. Nýi skólinn er þriggja deilda og getur rúmað allt að 70 börn samtímis. Stærð skólans er 501 m² auk 8.256 m² lóðar. Framkvæmdir við skólann hófust í byrjun desember á sl. ári og lauk nú um miðjan ágúst. Byggingarframkvæmdir við húsið stóðu yfir í um átta og hálfan mánuð sem er heldur lengri tími en áætlanir gerðu ráð fyrir.
 
Það var teiknistofan Pro-Ark á Selfossi sem hannaði húsið en fyrirtækin Nýverk í Borgarnesi og SG-hús á Selfossi höfðu veg og vanda að sjálfri byggingarframkvæmdinni en um jarðvinnu hússins sá Borgarverk. Vinna við frágang lóðarinnar umhverfis skólann stendur ennþá yfir en um þær framkvæmdir sér Íslenska Gámafélagið.
 
Formleg vígsluathöfn verður síðar í haust.
 
Á meðfylgjandi myndum má sjá hressa krakka á fyrsta degi í nýja leikskólanum og nokkrar myndir sem teknar voru á framkvæmdatímanum. Myndasmiðir eru Jökull Helgason og Hólmfríður Sveinsdóttir.
 

Share: