Leikskólar í Borgarbyggð hefja innleiðingu á Réttindaskóla UNICEF

júní 25, 2021
Featured image for “Leikskólar í Borgarbyggð hefja innleiðingu á Réttindaskóla UNICEF”

Undanfarna mánuði hafa leikskólarnir í Borgarbyggð fengið kynningu á og hafið innleiðingu á hugmyndafræði Réttindaskóla UNICEF. Í því felst að samþykkja að nota barnasáttmálann sem viðmið í starfi og að forsendur sáttmálans séu leiðarstef í starfsemi leikskólana.

Réttindaskóli er hugmyndafræði fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálann) og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda. Skólarnir sem vinna eftir líkaninu leggja sáttmálann til grundvallar í öllu sínu starfi; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi sem byggist á þátttöku, jafnrétti og virðingu. Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að vera gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Frumkvæðið að þessu verkefni er komið frá skólastjórnendum en þegar innleiðingin á barnvænu sveitarfélagi hófst í Borgarbyggð var jafnframt lýst yfir áhuga á því að taka verkefnið nær skólunum með því að hefja innleiðingarferli á Réttindaskóla UNICEF. Til gamans má geta að það voru nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar – Kleppjárnsreykjadeild sem höfðu frumkvæði að því að Borgarbyggð óskaði eftir því að gerast barnvænt sveitarfélag.


Share: