Landbúnaðarsafn Íslands stofnað

febrúar 15, 2007
Í gær var Landbúnaðarsafn Íslands formlega stofnað á Hvanneyri. Safnið verður til á grunni Búvélasafnsins, sem þekkt er orðið fyrir sérstöðu sína við að varðveita og kynna sögu íslensks landbúnaðar. Nýtt landbúnaðarsafn verður sjálfseignarstofnun og eru stofnaðilar eftirtaldir: Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtök Íslands og Borgarbyggð. Helsti forgöngumaður þessa verkefnis og sá sem mesta atorku hefur lagt í uppbyggingu Búvélasafnsins er Bjarni Guðmundsson prófessor á Hvanneyri.
Fram kom í gær að Bjarni mun helga hinu nýja safni krafta sína að miklu leyti næstu þrjú árin og er það hluti af framlagi Landbúnaðarháskólans til safnsins. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar safnið var stofnsett við hátíðlega athöfn í gær. Á myndinni eru frá vinstri: Gunnar Sæmundsson frá Bændasamtökunum, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Páll Brynarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskólans og Bjarni Guðmundsson forstöðumaður hins nýja safns. Ljósmyndari: Ásdís Helga Bjarnadóttir.

Share: