Borgarbyggð boðar til almenns kynningarfundar um skipulagshugmyndir Brákareyjar í Borgarnesi. Fundurinn verður haldinn á morgun, laugardaginn 21. apríl n.k. á Hótel Hamri og hefst kl. 09:30. Vonast er til að sem flestir sjái sér fært að mæta, en hér er um að ræða einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þróun byggðar í eyjunni.
Fjórar arkitekta- og teiknistofur munu kynna hugmyndir sínar um framtíðarskipulag byggðar í Brákarey en þær hafa áður verið kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins í mars sl.
Stofurnar sem að hugmyndunum standa eru: Kanon arkitektar, Landlínur, VA-arkitektar og Teiknistofa Vesturlands.
Að kynningum loknum verða umræður í smærri hópum þar sem fólki gefst kostur á að koma á framfæri hugmyndum sínum og skoðunum og leggja sitt af mörkum varðandi áherslur við áframhaldandi skipulagsvinnu.
Í boði verður léttur morgunverður.
Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir