Kynningarfundur um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Borgarbyggð

nóvember 25, 2019
Featured image for “Kynningarfundur um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Borgarbyggð”

Forstöðumenn stofnana Borgarbyggðar, sveitarstjórnarmenn og aðrir áhugasamir voru boðaðir á kynningarfund um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Borgarbyggð. Hjördís Eva Þórðardóttir verkefnastjóri UNICEF á Íslandi gerði grein fyrir ferlinu sem innleiðingin felur í sér. 

Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggist á fimm grunnþáttum sem eru leiðbeinandi við innleiðingu Barnasáttmálans.  Þættirnir hafa tengingu við grundvallarforsendur Barnasáttmálans og útlista þær kröfur sem sáttmálinn gerir til stjórnvalda um breytt verklag, ákvarðanaferla og viðhorf til barna í samfélaginu.

Grunnþættirnir barnvænna sveitarfélaga eru eftirfarandi:

  • Að réttindi barnsins séu vel þekkt.
  • Að horft sé til réttinda allra barna.
  • Þátttaka barnsins.
  • Barnvænt samfélag.
  • Það sem barninu er fyrir bestu.

Þess má geta að nemendur og starfsmenn Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar lögðu fram erindi til sveitarstjórnar fyrr á árinu, þar sem skorað var á Borgarbyggð að hefja formlegt innleiðingarferli á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Tók sveitarstjórn vel í erindið og ræddu þann möguleika að ráðast í samstarf við UNICEF um innleiðingu á hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá 1996.

Íslenska líkanið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. Einnig að skólar og frístundastarf í Borgarbyggð taki þátt í verkefninu Réttindaskólar en það byggir á barnasáttmálanum og gengur út á að skapa lýðræðislegt umhverfi og styðja við ferla sem þegar eru til staðar innan skóla- og frístundastarfs sem byggja m.a. á lögum um grunnskóla, aðalnámskrá, skólanámskrá, stefnumótun í æskulýðsmálum, skóla-og jafnréttisstefnum. Sviðsstjóra fjölskyldusviðs var falið að semja við UNICEF um ráðgjöf og innleiðingu á réttindaskólaverkefninu og barnvænu samfélagi í Borgarbyggð í samráði við skólastjórnendur og aðra sem að málinu koma.

Fyrr í þessum mánuði undirritaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF. Með samningnum er stefnt að því að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tileinkað sér barnaréttindanálgun í sínum verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum.

 


Share: