Kristín Þórhallsdóttir kjörin Íþróttmanneskja Borgarfjarðar 2022

janúar 10, 2023
Featured image for “Kristín Þórhallsdóttir kjörin Íþróttmanneskja Borgarfjarðar 2022”

Þann 6. janúar sl. hlaust Kristín Þórhallsdóttir nafnbótina Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022, annað árið í röð. Kristín hefur stundað klassískar kraftlyftingar frá árinu 2019 og keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness.

Á heimasíðu UMSB segir frá því að Kristín vann silfurverðlaun á EM og HM og tvíbætti evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu á árinu. Hún bætti auk þess íslandsmetin í hnébeygju, réttstöðulyftu, réttstöðulyftu single liftt og samanlögðu. Einnig náði hún 110,27 IPF-GL stigum á árinu, en það er mesti stigafjöldi sem náðst hefur af íslenskum keppanda.

Kristín er þriðja á heimslista Alþjóðlega kraftlyftingasambandsins (IPF) í sínum þyngdarflokki fyrir árið 2022 og á fjórða besta árangur í samanlögðu sem náðst hefur í þessum flokki í sögunni innan IPF.

Ásamt því að vera Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022 var hún valin Íþróttamaður Akraness 2022 og lenti auk þess í 8. sæti í vali samtaka íþróttafréttamanna á kjöri Íþróttamanni ársins 2022 og kjörin kraftlyftingakona ársins annað árið í röð.

Borgarbyggð óskar Kristínu innilega til hamingju með árangurinn.

 

 

 

Mynd: www.umsb.is


Share: