Koma jól yfir borg og bæ – Jólatónleikar fjölskyldunnar

desember 18, 2012
Miðvikudaginn 19. desember nk kl. 20:30 halda hjónin Theodóra Þorsteinsdóttir og Olgeir Helgi Ragnarsson ásamt dætrunum Sigríði Ástu og Hönnu Ágústu tónleika í Borgarneskirkju. Meðleik á píanó annast Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Aðgangur verður ókeypis og allir velkomnir.
Theodóra er skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, söngkennari og söngkona. Hún stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og í Vínarborg og hefur víða komið fram sem söngkona. Olgeir Helgi stundaði m.a. söngnám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Systurnar eru báðar í söngnámi við Söngskólann í Reykjavík. Ingibjörg er Borgfirðingum að góðu kunn, hún starfaði um margra ára skeið við Tónlistarskóla Borgarfjarðar en kennir nú við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Fjölskyldan heldur nú í fyrsta sinn saman tónleika. Fjölskyldan hefur sungið oft og mikið saman og hafa öll verið saman í nokkrum verkefnum, meðal annars sungu þau öll í uppsetningu Tónlistarskóla Borgarfjarðar á „Sígaunabaróninum“ eftir Johann Strauss á 40 ára afmæli skólans. Einnig fór fjölskyldan með Óperukórnum í Reykjavík til New York og söng í „Carmina Burana“ eftir Carl Orff í Carnegie Hall árið 2008 undir stjórn Garðars Cortes.

Ingibjörg og Theodóra hafa starfað saman frá árinu 1982 og eru því einnig tímamót í samstarfi þeirra.Þær hafa haldið fjölda tónleika saman og komið fram saman bæði hér á landi og erlendis.
Það hljóma jólatónar í Borgarneskirkju kl. 20:30 miðvikudaginn 19. desember.
 

Share: