Starfsemi Öldunnar er að Brákarbraut 25. Þar er vinnustofa til húsa og dósamóttaka. Á vinnustofunni starfa að meðaltali tíu starfsmenn og tveir leiðbeinendur ásamt forstöðumanni. Í dósamóttökunni starfa sjö starfsmenn og einn verkstjóri.
Framkvæmdum við húsnæðið var að ljúka og er almenn ánægja meðal starfsmanna með nýju aðstöðuna. Af því tilefni var opið hús föstudaginn 9. des. s.l.
Nú geta starfsmenn Öldunnar borðað hádegisverð á vinnustaðnum, fá þeir sendan matarbakka frá Brákarhlíð og munu byrja að elda eftir áramót.
Helstu verkefni vinnustofunnar nú eru gerð fjölnota jólapoka og jólakort. Vinnustofan sníðir einnig til tuskur fyrir HB Granda og starfsmenn framleiða kerti sem seld eru á staðnum og í Ljómalind. Auk þess vinna starfsmenn við það að líma merkingar á lok utan um jarðaber fyrir Sólbyrgi. Í Öldunni er einnig vefstóll sem nýtist vel til þess að vefa mottur og dúka. Hefur vefstóllinn vakið mikla lukku meðal starfsmanna og aukið fjölbreytni verkefna.
Forstöðumaður Öldunnar er Guðrún Kristinsdóttir
Opnunartími dósamóttöku er alla virka daga frá kl. 8:00 – 12:00 og 13:00 – 16:00.
Þar er hægt að fá skilagjald fyrir dósir og flöskur og kaupa ruslapoka.
Opnunartími vinnustofu er alla virka daga frá kl. 9:00 – 15:00.
Almenningi gefst kostur á að versla meðal annars fjölnotapoka, kerti, tuskur og skart.
Sími vinnustofunnar er 433 7440 og 433 7441 í dósamóttökunni.
Aldan er á facebook en þar er hægt að fylgjast með starfi vinnustofunnar.