Jólaútvarp tókst vel

desember 19, 2005
Árlegu jólaútvarpi unglinga í félagsmiðstöðinni Óðali Borgarnesi lauk s.l. föstudagskvöld með tónleikum í beinni útsendingu með einni vinsælustu hljómsveit landsins Skítamóral að viðstöddu fjölmenni.Það gefur auga leið að til þess að gera útvarp sem ætlað er að höfða til sem flestra bæjarbúa þarf mikinn undirbúning og metnað til þess að gera fjölbreytta þætti sem höfða til fleiri en unglinganna sjálfra. Þetta hafa unglingarnir haft að leiðarljósi þau 11 ár sem útvarpað hefur verið frá félagsmiðstöðinni Óðali.
Í nokkur ár hefur verið hægt að ná útsendingu á heimasíðu félagsmiðstöðvarinnar og voru heimsóknir inn á hana á meðan á útsendingu stóð vel á þriðja þúsund þannig að ljóst er að margir eru að koma við og hlusta á hvað unglingarnir eru að gera bæði í nærliggjandi sveitum. Eins höfum við frétt af hlustendum sem eru við nám erlendis sem þekkja fyrirbærið og eru að fá smá stemningu sem þau þekkja að heiman enda jólaútvarpið oft kallaður hér glaðningur í skammdeginu.
Nemendafélag Grunnskóla Borgarness sem stýrir öllu innra starfi í félagsmiðstöðinni hefur veg og vanda að þessu jólaútvarpi og í ár lögðu unglingar sig sérstaklega mikið fram við að gera vel þar sem þetta er síðasta stóra verkefni á 15 ára afmælisári félagsmiðstöðvarinnar.
Útvarpið er þannig byggt upp að undirbúningur fer fram í félagsmiðstöðinni þar sem starfsfólk þar skipuleggur heildina með stjórn nemendafélagsins sem jafnframt er félagsmiðstöðvarráð.
Vinnan teygir anga sína einnig inn í íslenskutíma í bekkjum skólans. Yngri bekkir vinna með kennurum sínum bekkjaþætti sem tengjast gjarnan jólunum sem framundan eru. Unglinanir vinna aftur á móti sjálfstæð handrit sem þau fá hjálp með að fínpússa hjá íslenskukennurum sínum en unglingarnir þurfa að skila inn tímamældu handriti að þætti sínum ef hann á að fá að fara í loftið í jólaútvarpinu.
Þannig gerist það ósjálfrátt að til verður skemmtileg og hvetjandi vinna sem tengir á jákvæðan hátt hefðbundið nám í skóla og óhefðbundið nám í félagsstarfi unglinganna í félagsmiðstöðinni, en pressan við að vera með þátt í beinni útsendingu er að sjálfsögðu eitt besta framsagnar og íslenskunám ef rétt er að farið og metnaður lagður í verkið.
Einnig komu unglingar í Nemendafélagi Varmalandsskóla með þætti í útvarpið og ungmenni í Ungmennahúsinu Mími Borgarnesi voru með þátt um starfsemi sína í ungmennahúsinu ásamt því að vera með opið hús um kvöldið. Fjölmenni kom í Mími þetta kvöld og kynntu sér starfsemi Mímis og boðið var upp á kakó og smákökur.
Mímir hefur verið rekin af sveitarfélaginu í 4 ár sem ungmennahús fyrir 16 ára og eldri og er hugsað sem eðlilegt framhald af félagsmiðstöðvarstarfinu í Óðali.
Aðaluppistaða ungmenna sem húsið nota eru nemendur sem sækja nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi en geta eðlilega ekki sótt það félagsstarf sem þar er í boði á kvöldin þar sem þau eru keyrð í Borgarnes seinni part dags.
Kemur félagsstarf þeirra í Mími þá í góðar þarfir fyrir þennan aldurshóp.
En aftur að starfinu í Óðali.
Nemendafélagið hefur á liðnum árum komið sér þar upp góðum upptökutækjum og læra unglingar sem sjá um tæknimálin gríðarlega mikið á því að taka upp og klippa saman yngribekkjarþætti að ógleymdum auglýsingum sem allar eru heimasmíðaðar af þeim sjálfum og leggur hljómsveitarklúbburinn og margir aðrir þessu lið með undirspili og söng. Fyrirtæki og stofnarnir í Borgarbyggð veita styrki í verkefnið sem annars væri erfitt að framkvæma en fá í staðinn heimatilbúna auglýsingu.
Þess má geta að í fyrsta skipti veitti nemendafélagið styrk af ágóða útvarpsins og fékk Inga Björk Bjarnadóttir peningaupphæð til að hafa með sér í ferð sem hún er að fara í til Bandaríkjanna með einstökum börnum. Einnig safnaðist styrkur til Torfa Lárusar Karlssonar í styrktarþætti í útvarpinu þannig að segja má að unglingarnir hafi látið gott af sér leiða á margvíslega vegu á síðustu dögum.
Af þessari vinnu má læra að ef að allir eru samstíga sem að koma þ.e. þeir sem stjórna skólastarfi og skipuleggja tómstundastarf má með svona verkefni virkja áhuga og dugnað unglingana og tengja þannig spennandi tómstundanám beint inn í hefðbundið nám og gera það í leiðinni meira spennandi í skólanum. Áhugasamir kennarar á höfuðborgarsvæðinu hafa í auknu mæli opnað augu sín fyrir möguleikum sem þarna hafa opnast eru t.d. farnir að nota aðstöðu sem þessa í félagsmiðstöðvum til þess að búa til og færa námsbækur yfir á hljóðdiska til þess að vinna betur með lesblindum sem dæmi.
Þannig að tækifærin eru mörg sem tæknin gefur aðeins spurning um áhugann og að nenna að framkvæma.
Við í Óðali þökkum unglingunum okkar fyrir frábært samstarf ásamt kennurum skólans við þetta skemmtilega verkefni sem unglingarnir geta verið stoltir af.
Um leið og starfið í Óðali fer í jólafrí óskum við þess að fjölskyldur noti jólahátíðina til að vera mikið saman og gera eitthvað skemmtilegt til að efla samheldni fjölskyldunnar.
Hafið það notalegt saman um jól og áramót og látið ekki áfengi eða önnur vímuefni eyðileggja gleði barnanna.
Gleðileg jól
Stjórn NFGB
Starfsmenn Óðals
Indriði Jósafatsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.
 

Share: