Árlegt jólaútvarp Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi verður sent út frá Óðali dagana 12. – 16. desember. Það hefst kl. 10.00 þann 12. með ávarpi útvarpsstjóra, Írisar Lífar Stefánsdóttur. Dagskráin verður með svipuðu sniði alla vikuna; fyrri hluta dags verður útvarpað þáttum sem yngri nemendur hafa umsjón með en síðdegis og á kvöldin verða eldri nemendur með þætti í beinni útsendingu. Fréttir og veður eru á dagskrá á hádegi og á föstudeginum verða „Bæjarmálin í beinni“ þar sem góðir gestir mæta í hljóðstofu og ræða ýmis málefni sem á okkur brenna. Von er á gestum úr atvinnulífinu, frammámönnum í íþrótta- og menningarmálum, sem og sveitarstjóra og fulltrúum sveitarstjórnar. Hinar sívinsælu, heimasmíðuðu auglýsingar verða svo á sínum stað.