Starfsmenn áhaldahússins hafa unnið hörðum höndum við að skreyta jólatréð í ár sem verður líkt og fyrri ár, staðsett í Skallagrímsgarði. Auk þess mun áhaldahúsið skreyta jólatré á Hvanneyri.
Jólatréð kemur aftur úr heimabyggð líkt og í fyrra og svo virðist vera sem skemmtileg hefð sé nú að myndast í sveitarfélaginu. Mikil eftirspurn var eftir því að gefa sveitarfélaginu jólatré í ár og því verður vonandi hægt að bjóða upp á tré úr Borgarbyggð næstu árin.
Það eru hjónin Valdimar Reynisson og Þórný Hlynsdóttir í Borgarnesi sem eiga jólatréð. Talið er að tréð hafi verið gróðursett á árabilinu 1982-1985 miðað við stærð þess og umfang. Uppruna trésins má rekja til Prince Williams flóa í Alaskaríki í Bandaríkjunum en talið er að fræið hafi komið frá því svæði. Auk þess má nefna að tréð er sitkagreni.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu verður ekki hefðbundin aðventuhátíð líkt og hefur verið undanfarin ár. Í stað þess munu börn úr 1. bekk í Grunnskólanum í Borgarnesi kveikja á trénu mánudaginn næsta, 30. nóvember með jólasveinum sem eru með sóttvarnarreglurnar á hreinu.
Borgarbyggð þakkar þeim hjónum kærlega fyrir þessa frábæru gjöf.