Jarðskálftar: Varnir, viðbúnaður og viðbrögð

mars 1, 2021
Featured image for “Jarðskálftar: Varnir, viðbúnaður og viðbrögð”

Vegna jarð­skjálfta­hrin­unnar sem nú stendur yfir á Reykja­nesi hvetur almanna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra fólk til að kynna sér varnir, við­búnað og viðbrögð vegna jarð­skjálfta. Fræðsla um við­brögð þegar jarð­skjálfti verður sem og við­brögð eftir stóra skjálfta er að finna á heima­síðu almanna­varna.

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga:

  • Mikilvægt að halda ró sinni.
  • Húsgögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Festið létta skrautmuni.
  • Lausir munir og skrautmunir: Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega þannig að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.
  • Kynditæki og ofnar: Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum.
  • Skápahurðir: Geymið þungan borðbúnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.
  • Svefnstaðir: Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milliveggi.
  • Rúður: Tryggið að glerbrot fari ekki yfir svefnstaði og íverustaði fólks. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.
  • Útvarp og tilkynningar: Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
  • Símar: Hafa ber í huga að farsímar duga skammt ef rafmagn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið eða hleðslubanka til að hlaða farsíma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sérstaklega eftir stóran jarðskjálfta) til að minnka álag á símkerfi í hamförum.

Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað.

• Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað

• Farðu undir borð eða rúm, verðu höfuð og háls, haltu þér í sterkbyggð húsgögn

• Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg. Gætið fyllstu varúðar og skoðið flóttaleið út eftir skjálftann.

• Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta

• Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað

• Láttu þína nánustu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftnn hættir

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn

• Vertu áfram úti – reyndu að finna skjól til að krjúpa, skýla, halda

• Reyndu að koma þér frá byggingum sem geta hrunið

• Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi

• Raflínur eru hættulegar ef þær slitna – varist að snerta þær

• Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að

  • Farðu frá ströndinni ef þú ert á svæði þar sem hætta er á flóðbylgju

Ef þú ert að keyra þegar þú finnur jarðskjálfta:

• Leggðu ökutæki og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

• Hafðu sætisbeltin spennt

• Haltu kyrru fyrir ef þú ert í bíl þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem hægt er að verða fyrir í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.


Share: