Jarðgerðarsamningur undirritaður

febrúar 28, 2008
Nýr verksamningur milli Landbúnaðarháskóla Íslands og Borgarbyggðar, um söfnun lífræns heimilisúrgangs á Hvanneyri og jarðgerð hans í Moldu, var undirritaður á Hvanneyri í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra var viðstödd undirritunina, en hún var í heimsókn á Hvanneyri ásamt aðstoðarkonu sinni, Önnu Kristínu Ólafsdóttur, til að kynna sér starfsemi LBHÍ og ræða við sveitarstjórnarmenn um skipulags- og umhverfismál í Borgarbyggð.
Samningurinn er að mestu samhljóða samningi milli Borgarfjarðarsveitar og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri frá 1999. Það sem þó gerir þennan samning ólíkan þeim fyrri er m.a. að upphæð greiðslu verður uppreiknuð árlega miðað við neysluvísitölu, Landbúnaðarháskólinn skuldbindur sig til að hafa aðstöðu fyrir þá sem vilja losa sig við lífræna sorpið oftar en á hálfsmánaðarfresti og að halda umhverfisfulltrúa Borgarbyggðar upplýstum um gang þjónustunnar. Sveitarfélagið skuldbindur sig til að útvega notendum poka sem eyðast í jarðgerðarferlinu og auðvelda með því þeim starfsmönnum sem sjá um Moldu vinnuna. Molda varð 10 ára á síðasta ári. Sjá hér grein á bls. 5 um afmælisbarnið eftir Ríkharð Brynjólfsson.
 
Myndir: Björg Gunnarsdóttir
 
 

Share: